149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tek alveg undir það. Ég virði málfrelsi þingmanna hvað þetta varðar. Ég bara velti því fyrir mér hvort þetta sé réttur vettvangur. Þegar þetta aukapláss varð til var mikil umræða um að auka einmitt við tímann í störfum þingsins en einhverra hluta vegna varð til lengri tími í óundirbúnar fyrirspurnir. Ég er bara að velta fyrir mér hvort við séum að beina þessu í réttan farveg þar sem við erum með meirihlutastjórn og það er pínu undarlegt þegar stjórnarþingmenn spyrja eigin ráðherra. Á sama tíma virði ég þetta alveg og hef ekkert út á fyrirspurnir stjórnarþingmanna að setja á þann hátt heldur. Ég er bara að velta fyrir mér í samræðunni hvort það sé eðlilegur vettvangur í eftirliti með framkvæmdarvaldinu að blanda þessu á einhvern hátt saman, hvort við ættum almennt að vera frekar með þetta meira í störfum þingsins eða á einhvern annan formlegri hátt en óundirbúnar fyrirspurnir.

Ekki alvarleg ábending. Ég er bara að vekja athygli á þessu og það er áhugavert hvernig fyrirspurnirnar kastast á milli stjórnarflokkanna, það er mjög skemmtilegt að skoða það.