149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp og ráðherranum fyrir að vera hér til svara og með sitt innlegg. Þetta mál hefur verið mikið til umræðu undanfarið ár og er í raun og veru mjög alvarlegt mál og viðkvæmt í leiðinni vegna þess að um leið og við viljum hafa landið allt í byggð, sem ég held að flestir séu sammála um, og hugsa vel um jarðrækt og annað slíkt megum við passa okkur á því að gjaldfella ekki jarðirnar með einhverjum algerum boðum og bönnum.

Þann 31. maí 2017 bar hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir upp skriflega fyrirspurn til dómsmálaráðherra sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Hyggst ráðherra setja skýrar reglur til þess að koma í veg fyrir kaup erlendra aðila, sem ekki hafa hér lögheimili og fasta búsetu, á landi, m.a. jörðum í eigu ríkisins? Ef svo er, hvert verður megininntak þeirra reglna?“

Svar dómsmálaráðherra barst 8. september 2017 þar sem hann tilkynnti um skipun starfshóps sem skilaði tillögum í ágúst það ár. Í áttunda lið þeirra tillagna segir:

„Hvers kyns áskilnaður um ríkisborgararétt (t.d. fasteignareiganda eða ábúanda) felur í sér mismunun og brýtur gegn skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Það er álit starfshópsins að ótækt sé að leggja til úrræði tengd áskilnaði um ríkisborgararétt.“

Ég vil vekja athygli á því hvernig Danir taka á þessu. Dönsk lög gera að sínu leyti ríkari kröfur en íslensk lög (Forseti hringir.) þannig að áskilið er að allir sem öðlast vilja eignarrétt yfir fasteignum þurfi að hafa fasta búsetu í Danmörku eða hafa haft búsetu um fimm ára skeið. Er þetta eitthvað sem hæstv. landbúnaðarráðherra gæti hugnast? spyr ég ráðherra.