149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:16]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Tillögur nefndarinnar sem um ræðir um að lögfesta búsetuskilyrði, svo sem skilyrði um notkun, kröfu til lögheimilis og takmarkanir á stærðum lands, eru ekki slæmar. Þær eru í rauninni nauðsynleg forsenda þess að farið sé vel með þá auðlind sem landareign er. En það er öllu óheppilegra að ætla hinu opinbera að tryggja samþykki þegar einhvers konar kaupsamningar eru í gangi, að lögfesta starfssviðstengdan forkaupsrétt eða búa til einhvers konar verðstýringarheimild. Þetta eru í rauninni aðferðir til að ganga inn á frjálsa markaði.

Ef við ætlum aftur á móti að tryggja að auðlindir á borð við land séu vel nýttar í þágu samfélagsins þarf að horfa á þessa auðlind sem takmarkaða og umsjón eða eignarhald á landi sem form einokunar á ákveðnum auðlindum. Það er eðlilegt að hafa skýrar reglur um það.

Hitt er annað mál að það er afar óheppilegt hversu mikið þessi umræða um landareignir stýrist af ótta við að útlendingar séu að koma og kaupa upp Ísland, einkum í ljósi þess að í gildi eru samningar og að þeir samningar sem gera þeim kleift að kaupa land á Íslandi gera Íslendingum jafnframt kleift að kaupa lönd úti um alla Evrópu. Það má svo sem vera að einhverjum finnist þetta of mikil fórn í einhverjum þjóðerniskenndarskilningi en það er ekki hægt að segja annað en að það sé stórkostlegt samkomulag sem þessi lönd hafa náð saman um í ljósi þess að land er takmörkuð gæði og takmörkuð auðlind alls staðar í heiminum, ekki bara á Íslandi.

Í staðinn fyrir að reyna að takmarka landareign við ríkisborgararétt eða álíka út frá einhverjum þjóðernislegum forsendum er eðlilegt að við pössum að þær auðlindir sem er úthlutað séu vel nýttar og á þann hátt sem þjónar hagsmunum alls samfélagsins.