149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:18]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég er ánægður með að fá tækifæri sem formaður þingflokks Flokks fólksins til að undirstrika þá skýru stefnu flokksins að við viljum ekki að landið verði selt undan þjóðinni. Skiljanlegur er sá uggur sem sest að fólki í ljósi upplýsinga um umsvif útlendinga í landakaupum hér á landi.

Í skýrslu um eignarhald á bújörðum eru ýmsar tillögur um tilteknar breytingar á ábúðarlögum og jarðalögum og ábendingar sem sýnist unnt að vinna frekar úr til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Hér á landi hljótum við einkum að taka mið af dönskum og norskum rétti í þessum efnum.

Dönsk lög um þetta efni miða að því að tryggja eðlileg og fjölbreytt landbúnaðarnot að teknu tilliti til landbúnaðarframleiðslu, náttúru, umhverfis og menningar og hafa skýr ákvæði um búsetu.

Markmið norsku laganna er einkum að stuðla að skilvirkri vernd fasteigna í landbúnaðarnotum sem á hverjum tíma þykir henta samfélaginu best.

Hér er verk að vinna að taka í auknum mæli mið af lögum um þessi efni í nágrannalöndum okkar. Við getum ekki, herra forseti, horft upp á að erlendir aðilar kaupi hér upp heila dali og firði. Mál er að linni. Landið er undirstaða fullveldis Íslendinga.