149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:27]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir að óska eftir þessu máli á dagskrá þingsins. Hér er um að ræða mál sem hefur verið þó nokkuð til umræðu síðustu ár og liggur nú fyrir skýrsla starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum. Við fyrstu sýn virðast tillögur starfshópsins flestar nokkuð skynsamlegar, en í þessu máli sem öðrum er þó mikilvægt að gæta meðalhófs.

Hv. þingmaður er hóf þessa umræðu spyr hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvernig hægt sé að tryggja að yfirráð yfir auðlindum haldist í eigu landsmanna. Það er í mínum huga ekki endilega mikilvægasta spurningin, heldur frekar að gæta þess að tryggja að bújarðir og auðlindir sem þeim kunna að fylgja safnist ekki á hendur fárra einstaklinga, hverrar þjóðar sem þeir svo sem eru. Eignasöfnun á fárra hendur er aldrei eftirsóknarverð og í þessu tilfelli er hún til þess fallin að fækka jörðum í byggð, sem ekki er æskilegt.

Í því tilliti er mikilvægt að horfa til framtíðar þegar kemur að dýrmætum auðlindum, eins og til að mynda vatnsréttindum, eins og fleiri hv. þingmenn hafa komið inn á.

Því tel ég mikilvægustu tillögur starfshópsins vera annars vegar að lögfesta í jarðalögum, nr. 81/2004, takmarkanir á stærð lands og/eða fjölda fasteigna, og hins vegar að lögfesta í ábúðarlögum, nr. 80/2004, búsetuskilyrði, þ.e. skilyrði um byggingu lands í landbúnaðarnotum á þann veg að landeigandi eða ábúandi skuli hafa þar lögheimili eða fasta búsetu og/eða lögfesta þar skilyrði um nýtingu lands í landbúnaðarnotum. Mikilvægt er að ráðherra komi þessum tillögum strax í ferli og fáum við vonandi að sjá afrakstur þeirrar vinnu hér í þinginu sem fyrst.