149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef lengi haft áhuga á þróun þessara mála, enda tel ég afar brýnt og mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að það sé búseta um allt land, að það sé ljós á næsta bæ, að ekki myndist göt í búsetuna og þá skiptir langtímaþróun að sjálfsögðu miklu máli.

Vegna þess hversu seigfljótandi þessi markaður er er rétt að horfa til sögunnar. Árið 1990 áttu tveir þriðju bænda jarðir sínar en við upphaf 20. aldarinnar voru þeir tæpur þriðjungur og um aldamótin 1800 átti tíundi hver bóndi sína jörð. Við höfum með öðrum orðum áður prófað það fyrirkomulag að auðstéttin eigi framleiðslutækin. Það held ég að enginn vilji aftur.

Þetta sýnir að það er ekkert náttúrulögmál að bændur eigi jarðirnar. Það er afrakstur af pólitík. Í „den tid“ var það fámenn stétt stóreignarbænda, kirkjan og svo ríkið sem áttu jarðirnar. Nú er öldin önnur og ósennilegt að kirkjan verði aftur leigusali bænda í landinu en núna erum við að fást við auðmenn nútímans, eins og dæmin hafa sannað undanfarin ár.

Stór svæði á norðausturhorninu og á Vestfjörðum eru komin í eigu erlendra aðila. Þá hafa íslenskir auðmenn einnig keypt stórar jarðir. Sumir muna kannski eftir félaginu Lífsval sem átti, ef ég man rétt, á fjórða tug jarða hérna fyrir 10–15 árum. Þar átti að fara í alvörustórbúskap en það fór eins og það fór, eins og mörg stórkarlaleg íslensk plön — lóðbeint á hausinn. Jarðirnar úr því eignasafni voru sumar seldar íslenskum bændum, aðrar, líkt og jörðin Flatey í Hornafirði, voru seldar Skinney-Þinganesi sem þar rekur nú stærsta kúabú landsins.

Tillögur starfshópsins eru ágætar. Þar kemur fram að hægt sé að færa inn í ábúðarlög ábúðarskyldu og nýtingarskyldu. Það er svo sem skárra að þeir sem safna jörðum séu skyldugir til að sjá til þess að jörðin sé nýtt. Gallinn við þetta fyrirkomulag er hins vegar einfaldur: Þegar bændur eiga ekki jarðir sínar er erfitt eða ómögulegt fyrir þá að fjárfesta í jörðunum. Þeir hafa lítil veð til að byggja fjós eða fjárhús. Þó að þeir megi veðsetja sinn eignarhluta í byggingum og jarðbótum hrekkur það skammt. Þannig verða jarðirnar hjá einni kynslóð að einhvers konar byggðasöfnum um búskaparhætti fyrri tíma.

Það er rétt að árétta að engu máli skiptir (Forseti hringir.) hvort það eru erfingjar sem búa á suðvesturhorninu sem eiga jörðina eða einhver breskur „lord“. Þess vegna held ég að það þurfi að horfa til þess að draga úr hvötunum til þess að jarðir safnist á fárra hendur. (Forseti hringir.) Það er grunnvandamálið og það skiptir engu máli hvort eigendurnir eru íslenskir eða erlendir — og það er ánægjulegt að heyra að gera á frekari gangskör í þessum málum, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, enda vart hægt að bíða öllu lengur.