149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:34]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að undirstrika það sem ég sagði í fyrri ræðu minni, það er óheppilegt hversu mikið umræðan snýst um þjóðerni þeirra sem ætla að hafa afnot af landinu. Sumir hv. þingmenn láta eins og kaup á landi skerði einhvern veginn þjóðréttarlega stöðu Íslands gagnvart landspildunni. En svo er ekki. Ég endurtek: Það vegur ekki að fullveldi Íslands að útlendingar kaupi lóðir eða ræktarlönd. Enn fremur ætti ekki að þurfa að reka þau ósannindi ofan í hv. þm. Birgi Þórarinsson að enginn landshluti hafi verið seldur útlendingum í heilu lagi þótt einstaka jarðir hafi verið seldar. Og ég veit ekki til þess að neitt slíkt standi til.

Þetta snýst um auðlindir. Þetta snýst ekki um þjóðerni. Mikilvægt er að huga að því hvaða auðlindir fylgi jörðum, ekki síst þegar um er að ræða auðlindir sem er auðvelt að ofnýta eða klára og auðlindir sem er mikil hætta á að skammist eða mengist við ágang manna. Samþjöppun eignarhalds er jafnframt hættuleg þróun.

Í þessu samhengi er rétt að líta ekki á þetta sem landbúnaðarumræðu eingöngu heldur auðlindaumræðu í víðum skilningi, jafnvel þegar um bújarðir er að ræða. Í dag eru málefni sem snúa að landareign á málasviði fjármálaráðuneytisins þótt vissulega hafi hæstv. landbúnaðarráðherra aðkomu að því sem snýr að landbúnaði. Í samhengi við auðlindir á borð við vatn, veiðiréttindi, mold, ræktarland, grjótnámur eða annað þurfum við skoða heildstætt með hvaða hætti við nálgumst regluverk um afnot af landi. Bújarðir eru auðvitað mikilvægt sértilfelli jarða og það er eðlilegt að við hugum sérstaklega að þeirri sérstöðu. En við skulum forðast að vera blinduð af hefðunum í þessum málum, nú þegar merkilegar breytingar eru að verða á því hvaða auðlindir sem tengjast jörðum eru álitnar verðmætar.

Ég legg til, herra forseti, að allir sameinist um að skilja útlendingafælnina eftir fyrir utan þingsalinn og leggja áherslu á auðlindirnar í þessu samhengi.