149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:41]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, svörin og öllum þeim hv. þingmönnum sem hafa lagt hér sitt til málanna. Ég er mjög ánægð að heyra að skýrslunni verði fylgt eftir, og ítreka mikilvægi þess, og að unnið verði úr þeim tillögum sem þar koma fram.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á eru bújarðir grunnur vinnunnar og viðfangsefni, eða hefur verið það hingað til, og markmiðið að viðhalda landbúnaðarlandi, halda byggð og styrkja samfélög. Ég legg þó áherslu á, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, að við horfum á allt land sem auðlind, jafnt þær jarðir sem nú eru í landbúnaðarnotum og þær sem eru í eyði og hafa jafnvel verið þar til margra ára. Allt landið okkar er auðlind og við megum ekki missa sjónar af því. Eins og hefur líka komið vel fram í umræðunni felst nýsköpun og styrking byggða ekki síst í einhverju sem við þekkjum kannski ekki núna, nýsköpun af ýmsu tagi.

Mig langar að koma aðeins inn á kröfuna um búsetu í landinu. Hún tengist í mínum huga akkúrat því sem hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á, ábyrgð og skyldum sem fylgja eignarhaldi á landi. Hún hefur ekkert með þjóðerni að gera heldur það að þeir sem eiga land og ætla sér að bera ábyrgð á því búi þar sem landið er eða í næsta nágrenni við það.

Eins og ég kom líka inn á í fyrri ræðu er mikilvægt að við undirbyggjum þau stjórntæki sem við beitum, hvort sem þau eru í lögum eða reglugerðum, með því að þekkja landið, skrá það og skipuleggja. Við getum á þeim grunni (Forseti hringir.) búið til hvata til nýtingar og nýsköpunar.