149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda sem og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Hér hefur verið farið mjög víða yfir, ýmis sjónarmið reifuð og vissulega mismunandi afstaða til málsins viðruð. Þau sjónarmið sem hér hafa komið upp þekki ég í umræðum um þá skýrslu sem hér liggur fyrir, sömuleiðis á grundvelli umræðu sem hefur átt sér stað innan ríkisstjórnar um viðfangsefnið. Það er ekki að ástæðulausu sem forsætisráðuneytið skipar þverfaglegan hóp um málið. Þetta liggur inni á borðum ólíkra ráðuneyta. Hér hefur dómsmálaráðuneytið verið nefnt sem sér um kaup útlendinga á jörðum eftir ákveðnum reglum. Fjármálaráðuneytið er með eignarhald á bújörðum. Þetta snertir byggðaáætlun á verksviði sveitarstjórnarráðherra, sömuleiðis umhverfismál á verksviði umhverfisráðherra o.s.frv.

Í stóra samhenginu vil ég þó segja að þegar menn eru að tala um að strax þurfi að takmarka uppkaup útlendinga kann vel að vera að menn hafi þau sjónarmið. Við verðum þó líka að horfa á hinn endann í stöðunni sem er eigandi landsins. Bóndinn, jarðeigandinn, á sinn rétt og við verðum líka að hafa í huga með hvaða hætti við ætlum að ganga á þann rétt ef við erum þessarar skoðunar. Það liggur fyrir að allar takmarkanir á eignarhaldi munu hafa áhrif á verðmæti þeirrar eignar sem viðkomandi eiga. Í skýrslunni er farið í gegnum þær hugmyndir sem hér hafa verið nefndar og komið mjög víða inn í umræðuna sem snýr að fyrirkomulagi þessara mála á Norðurlöndum, sérstaklega í Danmörku og Noregi, og allt gott um það. Á því verður tekið í framhaldinu. Sá farvegur sem málið fer í og sem hv. málshefjandi kallaði eftir er sá að forsætisráðuneytið mun stýra þessari vinnu á grundvelli þeirrar samþykktar sem þar var gerð og ég veit til þess að verið er að kalla eftir fulltrúum í þennan starfshóp þessa dagana.