149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu.

253. mál
[16:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Stjórnvöld hverju sinni vita hvað það eru margir einstaklingar í hverjum árgangi. Í hverjum árgangi, sem er að jafnaði um 4.000–4.500 manns, er síðan ákveðinn hópur einstaklinga sem þarf sérstakan stuðning samfélagsins eftir að framhaldsskólagöngu er lokið.

Stjórnvöld eiga því að hafa á takteinum hvað sá hópur er stór sem er með skerta starfsgetu og þroskahömlun og gera allt til þess að tryggja að úrræði og atvinnutækifæri fyrir þennan hóp séu til staðar. Það er að mínu mati ekki bara ábyrgðarlaust og sóun á fjárfestingu til lengri tíma að gera það ekki, heldur er það uppgjöf nútímasamfélags og hefur lítið með mennskuna sjálfa að gera.

Getur verið að stjórnvöld og atvinnulíf, kerfið sem slíkt, telji sig vera búið að gera sitt þegar skólagöngu lýkur hjá ungmennum með skerta starfsgetu og þroskahömlun á hinum ýmsu starfs- og námsbrautum? Að það þurfi bara ekkert að gera meira? Við verðum að spyrja okkur öll hvernig við getum opnað samfélagið betur fyrir því að gera ráð fyrir fjölbreytileikanum í öllu okkar daglega lífi.

Mörg fyrirtæki hafa sem betur fer áttað sig á sinni samfélagslegu ábyrgð og tækifærunum í sjálfri fjölbreytninni. En þau þurfa líka stuðning til að taka skrefið. Það gerist með fræðslu, með fyrirmyndum, eins og t.d. stjórnvöldum sjálfum, og almennum hvötum sem við komum okkur saman um.

Stjórnvöld sjálf geta gert mjög margt. Vinnumálastofnun hefur sem betur fer sett málið á dagskrá en Stjórnarráðið og stofnanir þess eiga líka að ganga á undan, markvisst og með góðu fordæmi.

Þegar virðulegi forseti stendur frammi fyrir því að ræða við barnið sitt um drauma þess, þegar það er orðið stórt, drauma sem geta kannski virkað ósköp hversdagslegir fyrir langflesta, hættir hann ekki að tala um drauma barnsins, langanir þess eða þarfir, þótt hann viti vel að það verði erfitt að uppfylla þótt ekki sé nema brotabrot af því sem barnið dreymir um. Maður hvetur barnið sitt áfram, ekki vegna óraunsæis eða algerlega blindrar ástar á barninu sínu, heldur af því að þetta er mögulegt í íslensku samfélagi. Því að þessa drauma, a.m.k. hluta þeirra, er hægt að uppfylla með því að þora að breyta og taka okkur lengra sem samfélag.

Smæð samfélagsins getur nefnilega líka verið styrkur og á að vera það. Við eigum að vera snögg til, greina viðfangsefnið og setja af stað úrræði sem hjálpa raunverulega, þannig að börnin sem koma af starfsbrautum verði áfram hluti af okkar hversdagslega lífi, m.a. í gegnum vinnu, félagsstarf eða hvað annað. Að þau verði ekki einangruð inni á heimilunum með lítil tengsl við raunveruleikann frá degi til dags.

Ef hindranir eru í veginum þarf að ráðast á þær með öllum tiltækum ráðum. Ef tölvan segir nei þarf að breyta forritinu. Þá þarf að breyta forsendunum. Ef kerfið styður ekki fjölbreytileikann þarf að breyta kerfinu.

Þess vegna spyr ég ráðherra þeirrar spurningar sem ég hef lagt fram: Hvað hyggst hann gera til að búa til hvata fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir þannig að þau sjái sér hag í því að ráða starfsfólk með skerta starfsgetu og tryggja að því bjóðist úrræði strax að loknum framhaldsskóla, þar sem nokkurn veginn er vitað hvað þessi hópur er stór?

Síðan spyr ég hæstv. ráðherra: Mun hann beita sér fyrir því að áætlun verði gerð hið fyrsta fyrir þennan hóp og kannað hversu kostnaðarsamt það er fyrir samfélagið ef ekkert verður að gert?