149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu.

253. mál
[16:50]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þetta. Ég fagna því að hv. þingmaður hafi tekið þetta mál upp hér og ég er ánægður með að hún skuli deila þeirri framtíðarsýn með þeim sem hér stendur varðandi það að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsgetu.

Í því felst m.a. að við aukum tækifæri fólks þess til að taka virkan þátt í samfélaginu, þar á meðal á vinnumarkaði.

Fólk með skerta starfsgetu getur og á að vera hluti af mannauði fyrirtækja rétt eins og aðrir íbúar þessa lands. Við megum ekki gleyma því að fólk með skerta starfsgetu getur verið mjög fjölbreyttur hópur fólks sem hefur yfir að ráða margvíslegri þekkingu og reynslu sem er synd að við nýtum ekki betur en við gerum.

Það liggur hins vegar fyrir að ákveðnir þættir virðast hamla því að fólk með skerta starfsgetu fái tækifæri til þátttöku á innlendum vinnumarkaði, hvort heldur er á almenna vinnumarkaðinum eða hjá hinu opinbera. Til að átta sig betur á því hvaða atriði það eru lét velferðarráðuneytið í samstarfi við Virk, starfsendurhæfingarsjóð, Vinnumálastofnun og samtök aðila vinnumarkaðarins gera rannsókn á styðjandi og hindrandi þáttum í sambandi við atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu. Niðurstöður þeirrar rannsóknar leiddu í ljós að vinnuveitendur óttast að fólk sem ekki er með fulla starfsgetu sé líklegra en aðrir til að nýta sér kjarasamningsbundinn veikindarétt sinn, sem er þá aftur talið vera aukin fjárhagsleg áhætta fyrir fyrirtækin.

Einnig var nefndur skortur á sveigjanleika, einkum hjá stjórnendum hjá hinu opinbera og á litlum vinnustöðum, bæði er varðar fjármagn og skipulag vinnutíma. Síðast en ekki síst hafa stjórnendur upplifað að það fylgir því mikil ábyrgð að ráða til sín fólk með skerta starfsgetu, jafnvel svo að þeim finnist þeir bera ábyrgð á lífi viðkomandi.

Virðulegur forseti. Þessar niðurstöður eru svolítið sorglegar en í þeim eru líka fólgnar miklar áskoranir sem við þurfum að takast á við sem samfélag og breyta þessum viðhorfum. Verið er að skoða í ráðuneytinu til hvers konar aðgerða er unnt að grípa til að mæta þessum áskorunum. Síðast en ekki síst er verið að skoða leiðir sem eru til þess fallnar að hvetja fólk sjálft til að taka þátt í vinnumarkaði.

Ég vona svo sannarlega að ég geti kynnt þær hugmyndir sem eru á teikniborðinu fyrir þingheimi fyrr en síðar og vonast ég til að þær verði ræddar á næstu dögum í samráðshópi um nýtt framfærslukerfi almannatrygginga.

Að því er varðar þann hóp sérstaklega sem fyrirspurn hv. þingmanns lýtur að hef ég verið talsmaður þess að það verði byggð brú á milli menntakerfis og atvinnulífs fyrir þá sem útskrifast af sérnámsbrautum framhaldsskóla og vilja taka stefnuna á vinnumarkaðinn. Hafa þegar farið fram samtöl á milli félagsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis hvað þessu viðvíkur.

Aftur vil ég ítreka að þessi hópur er ekki einsleitur og einstaklingarnir með misjafnar langanir og þarfir, eins og gengur. Einhverjir sækjast eftir að fara á hæfingarstöðvar, aðrir vilja fara í frekara nám og enn aðrir taka stefnuna beint á vinnumarkaðinn, með eða án stuðnings. Þessi hópur á sama rétt og aðrir til að leita sér aðstoðar hjá Vinnumálastofnun við atvinnuleitina og ég veit til þess að stofnunin hefur lagt áherslu á að veita þessum hópi góða þjónustu.

Vinnumálastofnun átti m.a. frumkvæði að samstarfi framhaldsskólanna í verkefninu Stuðningur í starfi. Starfsmenn stofnunarinnar hafa farið inn í skólana í þeim tilgangi að fræða verðandi útskriftarnemendur um hvernig þau þurfi að bera sig að við atvinnuleitina þegar námi þeirra lýkur og hvaða stuðning þau geti fengið hjá stofnuninni í því sambandi. Eru þau síðan hvött til að koma til Vinnumálastofnunar þegar skólunum lýkur, eftir atvikum með foreldrum sínum, þannig að unnt sé að hefja atvinnuleitina með þeim.

Ekki leituðu margir nýútskrifaðir nemendur af sérnámsbrautum til stofnunarinnar í vor, líklega vegna annarra virknitilboða, en þeim fjölgaði þegar hausta tók. Þá hófust ráðgjafar Vinnumálastofnunar þegar handa við að aðstoða þá við atvinnuleitina. Það er hins vegar ljóst að það tekur alltaf einhvern tíma að finna störf við hæfi, en litið er til þess að störfin séu þannig að líkur séu á að um framtíðarstarf sé að ræða.

Þetta verkefni er í stöðugri þróun með það að markmiði að veita þessum hópi atvinnuleitenda sem besta þjónustu.

Virðulegur forseti. Það er enginn efi í mínum huga að það kostar samfélagið heilmikið ef við aðhöfumst ekkert til að taka burtu þær hindranir sem fólk með skerta starfsgetu mætir við dyr vinnumarkaðarins. Við þurfum einnig að vera reiðubúin að leggja eitthvað til svo auka megi líkur þess að fólk með skerta starfsgetu hefji störf og taki virkan þátt á vinnumarkaði til lengri tíma. Slíkt skilar sér til lengri tíma. Sem dæmi sýnir dönsk könnun að meira en helmingur þeirra sem eru í sveigjanlegum störfum telur sig betur í stakk búinn til að takast á við aðstæður sínar en áður en þau hófu störf.

Við höfum verk að vinna. Til þess að ná árangri þurfa margir að leggja hönd á plóg. Það er gríðarlega mikilvægt að um þau skref sem stigin eru í þessum málum geti ríkt sem breiðust pólitísk samstaða vegna þess að ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um að hér er um mikilvægt verkefni að ræða sem skiptir okkur öll máli.

Ég vil að lokum þakka hv. þingmanni aftur fyrir að taka þetta mál upp í fyrirspurnatíma.