149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu.

253. mál
[16:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar til að þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Hún er gríðarlega þörf. Ég þakka líka fyrir þá punkta sem komu fram, bæði hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og hæstv. félagsmálaráðherra um það sem þegar er verið að vinna og þau mál sem athuguð hafa verið.

Mig langar til að beina sjónum að því að á hverju ári kemur út í lífið hópur ungmenna með skerta starfsgetu eftir að við höfum varið gríðarlegum tíma og orku, bæði fjölskylda og skólakerfið, í að byggja þessa einstaklinga upp. Það hefur oft og tíðum tekist mjög vel. Þau koma full tilhlökkunar úr námi á starfsbrautum þar sem er víða unnið frábært starf, hafa farið í starfsþjálfun til undirbúnings út í lífið, lært á launaseðla, hlakka til að skoða styrkleika sína og veikleika, vita hvað þau geta og hvað þau geta ekki, til þess eins að hlaupa á harðahlaupum beint á vegg og festast þar. Það er ekkert einfalt. Það er ekkert einfalt fyrir okkur sem búum við fulla starfsgetu að ná okkur eftir svoleiðis áfall. Það er nær ómögulegt fyrir fólk með skerta starfsgetu og mismunandi (Forseti hringir.) fatlanir að ná sér á strik eftir svoleiðis áfall. Og það er ekki víst að við náum (Forseti hringir.) að koma þeim á rétta braut núna sem beðið hafa í eitt, tvö og jafnvel þrjú ár eftir úrræðum.

Þannig að það er mjög brýnt að við klárum þetta. Ég fagna því að búið sé að skoða þetta og greina. En ég mun fagna enn meira þegar aðgerðir verða kynntar.