149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu.

253. mál
[16:57]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil í þessari umræðu vekja athygli þings og þjóðar á þingmáli sem við höfum lagt fram um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem liggur nú hjá þingnefnd. Vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja velferðarnefnd til að afgreiða málið frá sér svo þingmenn geti tekið afstöðu til þess. Slík lögfesting hefur mikla efnislega þýðingu og væri mikil réttarbót fyrir öryrkja og fatlaða. Nýlegur dómur Hæstaréttar sýnir að brýn þörf er á lögfestingu, en Hæstiréttur sagði tvisvar sinnum í þessum dómi að öryrkjar gætu ekki byggt á þessum samningi eins og lögum þar sem hann væri ekki lögfestur heldur einungis fullgiltur. Ef stjórnvöld eru hrædd við hugsanlegan kostnað vegna lögfestingar minni ég á að vegna fullgildingarinnar eigum við hvort sem er að uppfylla ákvæði samningsins.

Herra forseti. Mannréttindi geta kostað pening, en öryrkjar eiga ekki frekar en aðrir landsmenn að þurfa að gefa afslátt af mannréttindum sínum.