149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu.

253. mál
[16:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svarið.

Við vitum af því, sem er eiginlega sorglegt, að hér eru einstaklingar í vinnu með stuðningi sem eru að missa vinnuna og óttast alveg rosalega hvað verður um þá. Þar hafa þeir fengið þau svör að þeir fái ekki vinnu áfram nema með stuðningi. Það gildir víst bara í tvö ár, þannig að þar er pottur brotinn.

Síðan vitum við líka um einstaklinga sem eru með próf og annað, búnir að fara í gegnum allt, alveg upp í háskóla. Þeir segja frá fötlun sinni en þá eru þeir ekki einu sinni teknir í viðtal. Við vitum líka að það eru engin hlutastörf. Það vantar hlutastörf. Það vantar full störf fyrir þessa einstaklinga. Fyrir utan það að við sjáum aldrei auglýst sérstaklega hjá opinberum stofnunum eða sveitarfélögum að þau séu með hlutastörf fyrir (Forseti hringir.) þá sem á þurfa að halda. Þannig að einhvers staðar er pottur brotinn. Eins og ég segi er ekki hægt að fara út í (Forseti hringir.) starfsgetumat eða neitt fyrr en einhverjir slíkir hlutir eru komnir á hreint.