149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu.

253. mál
[17:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu á ríkið að hafa forgöngu um að skapa hér tækifæri fyrir fólk með skerta starfsgetu til þess að komast á vinnumarkað og geta öðlast fyllra og hamingjuríkara líf. Það er hægt að gera með ýmsum hætti. Það er hægt að gera það með þeim hætti t.d. að ríkið einsetji sér í samráði við sveitarfélög að ákveðinn fjöldi starfa hjá ríkinu verði í sjálfu sér frátekinn fyrir fólk með skerta starfsgetu og sköpuð verði tækifæri til þess með því að fjölga hlutastörfum. Auðvitað á ríkið þarna ríkar skyldur. Ríkisvaldið getur komið að þessum málum með öðrum hætti líka. Það má alveg hugsa sér að til þess að örva vinnumarkaðinn, hinn almenna, megi t.d. veita mönnum sem ráða fólk með skerta starfsgetu ívilnanir eins og lægra tryggingagjald. Þetta er allt á færi hæstv. ráðherra að gera. Þetta getur hann gert. Það er ekki eftir neinu að bíða fyrir hann.