149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp enn einu sinni til að leita ásjár forseta út af fyrirspurn sem ég lagði fram til félagsmálaráðherra upphaflega í mars sl. Ýmissa hluta vegna, vegna tafa á svari, varð ég að leggja fram sams konar fyrirspurn aftur núna í byrjun þings sem varðar sölu á fullnustueignum Íbúðalánasjóðs.

Ef ég man rétt, hæstv. forseti leiðréttir mig annars, hefur ekki einu sinni verið beðið um frest á svari við þessari fyrirspurn frá því í september. Ég veit ekki hvað veldur. Ég veit ekki hvort menn ætla sér að kría út annað álit Persónuverndar sem er þeim hagfelldara en það sem kom í vor um að Persónuvernd gerði ekki athugasemd við að nöfn þeirra manna og fyrirtækja verði gerð opinber sem hafa fengið að kaupa fullnustueignir Íbúðalánasjóðs sl. tíu ár fyrir 57 milljarða kr.

Ég veit ekki hvað dregst svona hjá félagsmálaráðherra og bið forseta ásjár, að ríkisstjórnin sem hefur styrkingu Alþingis að leiðarljósi standi við orð sín og svari þessari fyrirspurn.