149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta fyrir að hafa lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir því að reyna að fá einhver svör frá ráðuneytinu varðandi afdrif þessarar fyrirspurnar. Það er vissulega með ólíkindum að ráðherra skuli komast upp með að humma þetta fram af sér, í rauninni síðan í mars á þessu ári, að þingmenn skuli þurfa að endurnýja fyrirspurnina vegna þess að ráðherrann hefur móast við að svara henni.

Ef það er þannig að ráðherrar komist upp með slíkt hljótum við að þurfa að horfa til þess hvort við þurfum að breyta einhverjum lögum og reglum varðandi skyldu þeirra til að svara Alþingi, svara löggjafarsamkomunni. Auk þess skil ég heldur ekki, virðulegur forseti, hvers vegna ráðherrann er að draga lappirnar í þessu. Það væri vitanlega mjög hreinlegt og betra fyrir ráðherra sjálfan að koma fram með svör, nema þetta sé eitthvað sem er vont fyrir Alþingi að vita. Ég trúi varla að í því séu upplýsingar sem er óþægilegt fyrir alþingismenn að vita. Ég trúi ekki að neitt annað búi þarna að baki þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til allra góðra verka í því. Taka þarf ráðherrana föstum tökum varðandi þetta.