149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir það sem aðrir hafa sagt hérna og kannski bæta aðeins um betur. Þann 21. febrúar síðastliðinn var ég með fyrirspurn til munnlegs svars til dómsmálaráðherra. Þar sem hún var kannski pínulítið yfirgripsmikil hvatti ráðherra mig til að senda fyrirspurnina til skriflegs svars, sem ég gerði í kjölfarið, nákvæmlega eins, efnislega alveg eins, sami texti og svoleiðis. Svar við henni barst ekki á síðasta þingi og hefur enn ekki borist. Þetta er fyrirspurn sem er í rauninni búin að liggja inni síðan í febrúar, þegar allt kemur til alls.

Fyrst við fórum í munnleg svör í fyrirspurnatíma hélt ég að svörin lægju alveg fyrir, það ætti bara eftir að klippa og líma það sem náðist ekki að svara í ræðunni — en samt hefur svar ekki borist.

Þetta er því dálítið viðamikið vandamál.