149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Í tilefni af orðum hæstv. fjármálaráðherra langar mig að geta þess að svo háttar til um þessa fyrirspurn að svar við henni var sent þinginu rétt fyrir þingbyrjun með þeim orðum að þinginu væri sett sjálfdæmi um það hvort svarinu skyldi dreift eður ei. Auðvitað endursendi þingið þetta til ráðherrans vegna þess að það er ekki þingsins að ritskoða svör ráðherra eða ákveða hvort þau eigi að birtast í heild eða öðruvísi.

Það sem ég vil draga fram með því er að svarið við fyrirspurninni liggur fyrir. Það er tilbúið uppi í ráðuneyti. Það eina sem þarf að gera er að senda það aftur til Alþingis og birta það.

Þess vegna skil ég enn síður að þetta svar, sem hefur legið fyrir síðan í byrjun september eða fyrr, skuli ekki hafa verið sent á þeim dögum sem síðan eru liðnir. Það er líka þess vegna sem ég bið hæstv. forseta að (Forseti hringir.) taka á málinu af mikilli festu, af því að þetta er óþolandi framkoma.