149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

lækkun krónunnar.

[15:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að þingmaðurinn er að átta sig. Hann er að bakka niður í það að minni hækkun verði en áður var áætlað. Það leiðir jú af því að við höfum eyrnamerkt ákveðna fjárhæð, ekki bara á árinu 2019 heldur á öllum gildistíma fjármálaáætlunarinnar, til þess að styrkja bótakerfi öryrkja.

Það er verkefni sem staðið hefur yfir allt frá því að Pétur Blöndal leiddi þá vinnu fram á árið 2016. Hún stóð yfir á síðasta ári og hún stendur enn yfir. Við erum komin mjög langt með að ljúka þeim réttindabótum með kerfisbreytingum sem munu fylgja.

Fjármögnun þessara breytinga er að fullu tryggð á næsta ári frá og með þeim tíma sem líklegt er að breytingin geti tekið gildi. Við þetta hækka bótagreiðslur út úr almannatryggingum til þeirra sem búa við örorku eða fötlun um 5 milljarða. Það eru 5 milljarðar sem fara til að styrkja lífsgæði og réttindastöðu þessa fólks.