149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

kjarabætur til öryrkja.

[15:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar til að staldra við í þessum málflutningi. Það er í fyrsta lagi það að því er haldið fram af hv. þingmanni að sá hópur sem hér er undir, einn viðkvæmasti hópur samfélagsins, hafi algerlega setið eftir, ekki fengið að njóta þess langa hagvaxtarskeiðs sem við nú lifum. Þá vil ég benda hv. þingmanni á það að opinberar tölur sýna allt aðra mynd.

Ef við förum aftur til ársins 2010 sjáum við að heildarframlögin í almannatryggingum vegna þessa málaflokks voru á verðlagi dagsins í dag 40 milljarðar. Á næsta ári verða framlögin 70 milljarðar, fyrir hv. þingmann, 30 milljarða aukning á ársgrundvelli.

Hvað þýðir þetta í auknum bótarétti fyrir hvern og einn bótaþega? Þetta þýðir að bæturnar hafa hækkað fyrir hvern og einn bótaþega um 1,1 milljón á ári. Hvers vegna stendur þá þessi hv. þingmaður hér og heldur því fullum fetum fram að þessi hópur hafi algerlega setið eftir? Tölurnar sýna allt annað.

Við ætlum að halda áfram á næsta ári. Við ætlum að taka frá fjármuni til að auka réttindin. Svo getum við rætt um það, sem er allt önnur umræða, hvort við þurfum að gera enn betur, hvort við séum að skipta því sem er til skiptanna rétt eða ekki. Og við ættum sömuleiðis að taka umræðu um að það virðist vera sjálfstætt vandamál hjá okkur Íslendingum að þeim sem rata inn í örorkubótakerfið fjölgar hraðar en líffræðileg fjölgun í landinu er og það virðist líka vera að gerast hraðar en í nágrannalöndunum. Ef við missum stjórn á þeirri þróun mun það draga mjög verulega úr getu okkar til að styðja við þá sem eru í mestri þörf (Forseti hringir.) og það er mjög alvarlegt mál.

Ég held að við ættum að fara að beina umræðunni aðeins meira inn á þær brautir í stað þess að vera hér með fullyrðingar sem standast einfaldlega ekki skoðun.