149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

kjarabætur til öryrkja.

[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að svara þessu bara með því að segja að ég studdi Eygló Harðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, eindregið í því að vinna tillögur að kerfisumbótum. Ég studdi sömuleiðis Þorstein Víglundsson sem félagsmálaráðherra til þess að gera það sama. Og nú styð ég Ásmund Einar Daðason til þess að ná fram breytingum á kerfinu sem auka réttindin, gera kerfið sanngjarnara. Við höfum tekið frá fjármuni til að láta þær kerfisbreytingar ná fram að ganga. Það getur orðið strax á næsta ári.

Við erum sem sagt, þrátt fyrir það sem er að gerast við meðferð fjárlagafrumvarpsins í fjárlaganefnd, að setja 5 milljarða til að halda í við verðlag annars vegar og auka réttindin strax á næsta ári. Þetta er aðalatriðið.

Ég held að aðalatriðið sé að þessari vinnu verður að fara að ljúka. Við þurfum að ná fram þeim breytingum sem einmitt er ætlað að ná þeim áhrifum sem hv. þingmaður kallar eftir, þ.e. að við getum létt betur undir með þeim sem hafa minnst.