149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

lækkun framlaga til öryrkja í fjárlögum.

[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki í hvaða heimi hv. þingmaður býr þegar því er haldið fram að hér skilji menn ekki stöðu þeirra sem minnstu hafa úr að spila til að draga fram lífið í landinu. Þegar við horfum nokkur ár aftur í tímann og lítum bæði yfir bótakerfi örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega er myndin sú að bætur hafa hækkað um rúmlega 70 milljarða á ársgrundvelli. Á næsta ári setjum við 150 milljarða út í þessi tvö stóru kerfi.

Fyrir ekkert mjög mörgum árum síðan stóð sú tala í 80 milljörðum og þá fjármuni nýtum við úr sameiginlegum sjóðum til að gera fleirum kleift að draga fram lífið. Já, margir hafa úr litlu að spila. Í hópi ellilífeyrisþega eru margir sem ekki hafa náð að nýta starfsævina til að byggja upp lífeyri og í hópi örorkulífeyrisþega eru fjölmargir sem munu ekki eiga þess kost að fara út á vinnumarkaðinn og geta ekki drýgt tekjur sínar með öðrum hætti. (Forseti hringir.) Þetta er fólkið sem við viljum styðja. Þess vegna stendur yfir vinna við kerfisbreytingarnar og þá vinnu höfum við fjármagnað í áætlun okkar.