149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

framlög til öryrkja.

[15:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp í ræðustól með óbragð í munni. Ég fékk ekki einu sinni sólarhring til þess að fagna frumvarpi þar sem hætta á að skatta styrki, því ótrúlega óréttlæti sem viðgengist hafði hérna árum saman. Arður og auðsöfnun er meiri en það sem öryrkjar fá frá ríkinu. Er það vegna þess að þeir eru svo fjársjúkir að þeir eigi forgang í boði þessarar ríkisstjórnar fram yfir raunverulega veikt og slasað fólk?

Samráðshópur um endurskoðun almannatrygginga, sem ég er í, fundaði í morgun. Mér var skapi næst að mæta ekki en ég hef aldrei skorast undan því að mæta þar sem ég á að vera og talað er um að gera eigi eitthvað, að hjálpa. En ég trúi því ekki lengur. Ég trúi því ekki vegna þess að þegar búið er að lofa einhverju lemur maður ekki á þeim sem liggja veikir eða slasaðir með því að skerða þá um 1,1 milljarð. Það var búið að lofa þessu og þetta á alltaf að vera bara fyrsta þrepið. En þetta er búið að taka tvö ár.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um að búið sé að auka um 30 milljarða í þetta kerfi, að það sé 75% aukning. Og hverju hefur það skilað? Fyrir meiri hluta öryrkja 205.000 kr. útborgað — 205.000. En viðmið velferðarráðuneytisins um það sem fólk þarf að lágmarki eru 223.000 fyrir utan húsnæðiskostnað. Það eru öll ósköpin.

Að halda því síðan fram að þetta sé bara allt í lagi — ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að draga þetta til baka? Ætlar hann að sjá til þess að þetta verði ekki að lögum?