149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

framlög til öryrkja.

[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög rík þörf fyrir málefnalega umræðu um stöðu öryrkja í landinu, þróun örorkulífeyriskerfisins, þróun einstakra bótaflokka, þá staðreynd sem ég hef rakið hér í dag að orðið hefur gríðarleg fjölgun öryrkja í landinu, m.a. vegna stoðkerfisvandamála. Það bárust reyndar ágætisfréttir í vikunni af þeim þætti málsins, að það virðist vera að með auknu aðgengi að sjúkraþjálfun sé okkur að takast að forða mörgum frá því að enda á örorku með betri forvörnum. En við höfum líka séð mikinn vöxt í andlegum sjúkdómum og öðrum þáttum sem okkur hefur ekki tekist nægilega vel að takast á við.

Sá þáttur þarf að vera hér til umræðu. Við þurfum að geta rætt um kerfisbreytingarnar. Það sem mér finnst eiginlega standa upp úr eftir orð hv. þingmanns er þetta: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við fjármögnum kerfisbreytingarnar ef við eigum strax núna um áramótin að verja öllu því sem tekið hefur verið til hliðar til þess að fjármagna réttindaaukningu fyrir öryrkja ef við ætlum að ráðstafa því öllu núna strax, eins og hv. þingmaður virðist ganga út frá, án þess að gera breytingar á kerfinu?

Þá verður ekkert eftir í kerfisbreytingarnar, ekki neitt, sem þýðir að ef kerfisbreytingar án fjármögnunar eiga sér stað munu sumir fá meira og aðrir fá minna.

Er það það sem hv. þingmaður er að tala um, að við ráðstöfum sem sagt öllu svigrúmi í ríkisfjármálunum?

Ég er oft einn að tala um það hér að fjármunir eru af skornum skammti. Og ólíkt því sem margir þingmenn halda er ekki endalaust til í ríkissjóði til að mæta væntingum allra í landinu. Ef við ráðstöfum öllu svigrúminu í fjármálaáætluninni til þess að auka réttindin í núverandi kerfi, hvar ætlar hv. þingmaður að fá peningana (Forseti hringir.) til að fara í kerfisbreytingarnar?