149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

framlög til öryrkja.

[15:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að svara hæstv. ráðherra með því að vitna orðrétt í það sem félags- og jafnréttismálaráðherra sagði á þingi fyrr ekki svo löngu. Þar segir hann, með leyfi forseta, og það kemur skýrt fram:

„Ég ítreka, eins og hv. þingmaður kom inn á, að við erum með á næsta ári 4 milljarða, nýja, inn í þetta kerfi. Ég hef sagt það, bæði opinberlega og við hagsmunasamtök, bæði Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp, að útfærsla á því hvernig við ráðstöfum því fjármagni yrði unnin í samstarfi við þessi samtök. Það liggur fyrir að við erum með 4 milljarða, við getum notað þá til þess að draga úr þeim skerðingum sem hv. þingmaður kom inn á, …“

Hann segir þetta orðrétt. Hann ætlar að nota 4 milljarða — (Gripið fram í: Í kerfisbreytingar.) nei, ekki í kerfisbreytingar. Orðrétt, hann ætlar að tala við hagsmunasamtök og nota fjármunina núna um áramótin. Það eru hvergi kerfisbreytingar inni í þessu.

Þetta er ekki nema einn þriðji af kerfisbreytingunum, þá á eftir að tala um — eigum við að tala um skerðingarnar? Eigum við að tala um hvað mikið fer í skerðingar, hvað mikið er skert, (Forseti hringir.) hvað ríkið fær í þeim? Hvernig væri að koma þeim tölum upp hérna líka?