149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

framlög til öryrkja.

[15:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður misskilur málið algjörlega. Að sjálfsögðu er ráðherrann að tala um að í nýju kerfi verði dregið úr skerðingum og til þess er fjármögnun. Að sjálfsögðu er hann að tala um það. Að sjálfsögðu hefur ráðherrann verið að vinna sína vinnu með þeim hætti að það fengist endanleg niðurstaða í málið núna um áramótin. Vilji okkar hefur staðið til þess frá árinu 2016, en því miður er ekki kominn botn í vinnuna. Þegar við erum að setja saman fjárlög fyrir næsta ár þá erum við að horfa á hvenær raunhæft sé að áætla að kerfisbreytingin, sem 4 milljarðarnir eiga að fjármagna, taki gildi. Við horfum bara raunsætt á stöðuna og segjum: Tillögurnar eru ekki komnar fram. Það er mjög óraunsætt að ætla að þær taki gildi 1. janúar, en við getum haft vonir um að það verði eftir fyrsta ársfjórðung og frá og með þeim tíma eru 4 milljarðar á ári inn í framtíðina tryggðir í áætlunum okkar. Af þessu erum við stolt.

Við erum stolt af því að hafa undirbúið fjárlög ríkisins til næstu ára með þeim hætti að fjármagna þessar breytingar vegna þess að þetta skiptir máli ofan á þá 1,1 milljón á ári sem að meðaltali fer í dag út í örorkubætur. (Forseti hringir.) Þetta snýst ekki um hvort við höfum enn þá verk fyrir höndum. Þetta snýst um að standa við það sem áður hefur verið sagt og (Forseti hringir.) hv. þingmaður misskilur það til hvers 4 milljarðarnir voru ætlaðir.