149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

efnahagslegar forsendur fjárlaga.

[15:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að taka með mér hjálpartæki í pontu. Ég ætla aðeins að reikna út fyrir hv. þingmann þennan gríðarlega forsendubrest sem hann telur að hafi orðið. Hann talar um 6 milljarða, það þurfi að færa til 6 milljarða í fjárlögunum á milli umræðna. Setjum það í samhengi við 900 milljarða fjárlög. Við fáum út töluna 0,006. Við náum ekki 0,01%. [Leiðr. ráðherra: 1%] Þetta er forsendubrestur hjá hv. þingmanni. Þetta er eins og hver annar brandari. Ég veit ekki hvar hv. þingmaður er staddur í veruleikanum.

Við leggjum fram fjárlagafrumvarp sem er byggt á voráætlun um hagspá fyrir næsta ár og við þurfum um haustið til að gera breytingar og ráðstafanir upp á 6 milljarða af 900. Hann stígur hér upp og segir að forsendur ríkisfjármálanna séu brostnar. Við erum með 30 milljarða afgang á ríkisfjármálum. Við erum að auka rammasett útgjöld um rúm 4%. Hvar er forsendubresturinn?

Og að nota 2017 sem viðmiðunarpunkt varðandi þróun á bótum til ellilífeyrisþega — ég stend hér til að færa ykkur þau tíðindi að ef horft er aftur um fjögur, fimm ár þá hefur kaupmáttur eldri borgara vaxið umfram alla aðra hópa í landinu. Hann hefur vaxið umfram kaupmátt allra annarra hópa í landinu. Það er staðreynd. Það þýðir ekki að koma hér upp með einhvern misskilinn forsendubrest og þvaðra um eitthvað annað.