149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

efnahagslegar forsendur fjárlaga.

[15:51]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er auðvitað enn þá með höfuðið á bólakaf í sandinum varðandi það að þessi forsendubrestur er rétt að hefjast. Við erum á leiðinni inn í mjög hratt kólnandi hagkerfi og forsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar sem lofaði miklum og auknum útgjöldum í velferðarkerfið munu ekki standast. Við skulum bara taka þá umræðu eftir því sem fram vindur.

Það þýðir hins vegar ekki í þessari umræðu að taka það mikla grettistak sem gert var í málefnum eldri borgara og örorkulífeyrisþega hér á árinu 2016 eftir mjög mikla skerðingu í kjölfar hrunsins 2009 og 2010 og slá sig til riddara á því núna. Þetta er einfaldlega staðreyndin. Það er verið að minnka verulega kaupmátt þessara hópa til baka frá þeirri hækkun, sem vissulega var 2016, á næstu tveimur, þremur árum gangi þessar forsendur eftir. Hæstv. fjármálaráðherra segir að þetta séu bara einhver skekkjumörk hérna, 0,6% af fjárlögum, sem er alveg rétt. 6 milljarðar í 900 milljarða samhengi er ekki stórt en það vekur enn meiri furðu að ríkisstjórnin hafi ekki getað fundið neina aðra leið til að loka því gati en að ráðast á velferðarkerfið. (Gripið fram í: Nákvæmlega. Heyr, heyr.)