149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

efnahagslegar forsendur fjárlaga.

[15:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Talan er 0,06%. [Leiðr. ráðherra: 0,6%] Það er forsendubresturinn. Það eru tilfærslurnar. En því er haldið fram hér að það sé hagrætt og skorið niður í velferðarþjónustu eða heilbrigðiskerfi. Það er alrangt. Í hverjum einasta málaflokki er verið að auka við framlög á næsta ári, í hverjum einasta málaflokki. Það er út af fyrir sig rétt að aukningin er ekki alveg hin sama, þ.e. við erum ekki enn þá yfir 5% aukningu eins og til stóð, en við erum yfir 4% aukningu í rammasettum útgjöldum.

Ég sakna þess málflutnings sem heyrðist frá hv. þingmanni á vordögum um að við værum að fara of bratt í útgjaldaaukningunni. (Gripið fram í.) Um forsendurnar verð ég að segja að við getum ekki samþykkt að taka efnahagsforsendur Viðreisnar sem grundvöll fyrir fjárlagagerðina. Við erum að nota efnahagsforsendur og þjóðhagsspá frá Hagstofunni. Mér finnst það málefnalegt og mér finnst að við eigum að geta tekið umræðu um hvort það sé of bjartsýn spá eða ekki. Það er spáin sem við erum að nota. Við gerum líka ráð fyrir, eins og hv. þingmaður, að það sé að kólna í hagkerfinu, hægja sé á hagvexti og þess vegna er m.a. í fjármálastefnunni gert ráð fyrir minnkandi afkomu ríkisfjármálanna á næstu árum.