149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

tekjuskattur.

335. mál
[16:04]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því mjög að þetta frumvarp er komið fram. Ég þakka ráðherra sérstaklega fyrir ræðu hans og mörg góð orð sem þar féllu og ég er mjög ánægður með að þetta brýna réttlætismál skuli hafa eignast öflugan liðsmann, eins og fjármálaráðherra svo sannarlega er. Það kemur fram og er kannski rétt að nefna það að frumvarpið er afar snoturlega unnið. Það var lagt fyrir fjármálaráðherra með þingsályktun í júní síðastliðnum og ástæða er til að þakka ráðherra fyrir vel unnin störf í þessu sambandi.

Ég vil nefna eitt atriði sem er að fram kemur í kaflanum um samráð að þetta hafi verið borið undir velferðarráðuneytið, ríkisskattstjóra og Samband íslenskra sveitarfélaga. Og það var einmitt umsögn frá ríkisskattstjóra sem varð kannski þess valdandi að það frumvarp sem lagt var fram upphaflega af þingmönnum Flokks fólksins, sama efnis — það kom sem sagt hik á menn og niðurstaðan varð sú að fela ráðherra að leggja fram frumvarp þessa efnis með þingsályktuninni frá 12. júní síðastliðnum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki megi treysta því að tekið hafi verið tillit til allra ábendinga sem fram komu hjá ríkisskattstjóra við gerð frumvarpsins þannig að vænta megi þess að athugasemdir þaðan verði ekki til þess að torvelda eða tefja afgreiðslu málsins á Alþingi.