149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

tekjuskattur.

335. mál
[16:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt sem fjallar um uppbætur á lífeyri sem verða þá undanþegnar tekjuskatti. Ég tel að í upphafi máls míns sé rétt að nefna að málið kemur í kjölfar ágætisþingmáls frá þingmönnum Flokks fólksins á síðasta þingi. Hér er í rauninni verið er að klára það mikla réttlætismál sem ýmsir þingmenn, meðal annarra og líklega oftast hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, hafa talað um hér í pontu að þyrfti að ráða bót á.

Hér er í rauninni breyting í þá átt að aftengja eina af þeim fátæktargildrum sem eru í skatta- og bótakerfi okkar. Það er mjög mikilvægt að gera það, þ.e. að það að þiggja styrk, t.d. til að kaupa sér heyrnartæki, verði ekki til þess að tekjur manna lækki sem þeir hafa sér til framfærslu. Það er gríðarlega mikilvægt. Þeir þingmenn sem fóru fram með þetta mál upprunalega eiga miklar þakkir skildar fyrir það. Það er líka í þá átt sem rætt hefur verið lengi, að sú aðstoð sem menn þurfa til þess að geta lifað eins eðlilegu lífi og kostur er þrátt fyrir þær skerðingar sem þeir kunna að hafa, sé tekin út fyrir sviga þegar kemur að skattskyldum tekjum.

Við höfum rætt þetta áður, margir þingmenn hér, t.d. í sambandi við hjálpartæki almennt. Þegar verið er að hugsa um með hvaða hætti við deilum út hjálpartækjum til fólks sé það tekið út fyrir sviga, þ.e. að það snerti ekki bætur þeirra að öðru leyti. Það finnst mér vera mjög mikilvægt vegna þess að markmið allrar lagasetningar sem snýr að stöðu fólks sem er með ýmsar skerðingar hlýtur alltaf að vera að tryggja að staða þeirra sé eins lítið frábrugðin stöðu annarra íbúa landsins, því að nógir er nú eru erfiðleikarnir sem fólk kann að búa við þegar það hefur ekki fulla starfsgetu eða góða heilsu. Það á í rauninni að vera miklu meira en nóg. Samfélagið á þá frekar að koma til móts við það fólk en að íþyngja því.

Hér er í rauninni á ferðinni breyting sem snertir tvær greinar í lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Mér finnst að í framhaldinu muni þetta setja af stað einhverjar vangaveltur eða umræðu almennt um hvort við þurfum að ganga lengra í þessu eða hvort skynsamlegt væri að ganga lengra í þessu. Það á líka við um aðra slíka styrki, þær bætur sem menn kunna að fá, til að mynda lýðheilsustyrki sem menn fá frá verkalýðsfélögunum sínum, eða gleraugnastyrki eða alls konar hjálpartækjastyrki sem menn fá frá verkalýðsfélögunum.

Ég geri mér grein fyrir að það á ekki við hér, það er ekki það sem við erum að fara fram á hér. En engu að síður er þetta kannski opnun á þá umræðu. Ég er hins vegar á því að við eigum að taka eitt skref í einu og að þetta skref núna sé þess vegna alveg nóg í bili.

Ég hlakka til að takast á við frumvarpið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég hef a.m.k. ekki skilið umræðuna öðruvísi, hvorki hér í þingsal né á milli þingmanna utan þingsalar, en svo að þingmenn séu áfram um að klára málið þannig að það geti orðið að lögum fyrir áramót.