149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

tekjuskattur.

335. mál
[16:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla eins og aðrir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls í þessu máli að fagna því að það sé hér fram komið. Þetta mál á upptök sín í því að hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson og aðrir þingmenn Flokks fólksins fluttu hér sambærilegt frumvarp á síðasta þingi sem við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd tókum til umfjöllunar.

Ég held að óhætt sé að segja að ríkt hafi alger samstaða um mikilvægi málsins og um hversu mikilvæg réttindabót þetta væri, þ.e. að fólk gæti þegið svona uppbætur án þess að af þeim væri tekinn skattur því í rauninni væri um að ræða endurgreiðslu útgjalda. Að sama skapi ætti slík endurgreiðsla útgjalda ekki að hafa einhvern skerðingarmátt á öðrum stöðum í kerfinu.

Ég held að nefndin hafi verið fullkomlega sammála um þetta. Þó að einhverjir annmarkar kunni að hafa verið á upphaflega frumvarpinu sammæltumst við um þingsályktunartillögu sem fól ráðuneytinu að leggja fram frumvarp með nákvæmlega þetta inntak. Ég held að öll greidd atkvæði, ef ég man rétt, hafi fallið með þeirri þingsályktunartillögu þannig um þetta ríkir mikil samstaða hér á þinginu.

Hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér, Guðmundur Ingi Kristinsson, sagði eitthvað á þá leið að venjulegt fólk sem ekki þyrfti að þiggja þessa styrki áttaði sig ekki á því hvað þetta þýðir. Ég veit ekki hvort ég sé venjuleg. En ég ætla alla vega að lýsa því yfir að ég hef ekki þurft að þiggja slíka styrki og átta mig þar af leiðandi kannski ekki alveg á því hvað það þýðir. En ég skal viðurkenna að þegar ég kynnti mér þetta mál á sínum tíma fannst mér það furðulegt. Mér fannst mjög furðulegt að við værum að styrkja útlagðan kostnað í ljósi fötlunar en á sama tíma að draga af því skatt og skerða framfærslu einhvers annars staðar.

Mig langaði bara að koma hérna upp og fagna því að þetta mál sé fram komið. Ég held að þetta sé mikilvægt mál. Mig langaði líka að benda á hversu mikilvægt það er að þingheimur geti tekið höndum saman um svona mál eins og gert var í þessu tilfelli þar sem var samstaða í nefndinni. Það var sammælst um að fara þá leið að leggja fram þingsályktunartillögu og fela ráðherra að koma með fullbúið frumvarp þar sem væri búið að horfa út í alla anga og alla þætti sem virtust eitthvað trufla áður þegar við fengum umsagnir um fyrra mál. Þar af leiðandi vænti ég þess að umsagnir um þetta mál verði jákvæðar og umræðan jákvæð og tek heils hugar undir það sem aðrir þingmenn hafa sagt hér á undan mér og vona að við getum sammælst um að afgreiða þetta hið fyrsta.