149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

sálfræðiþjónusta í fangelsum.

137. mál
[16:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég fagna því að við fáum tækifæri til að ræða það sem þessi mikilvæga þingsályktunartillaga snýst um, þ.e. um sálfræðiþjónustu og þá einkum sálfræðiþjónustu í fangelsum. Þetta endurspeglar það sem við erum að upplifa núna vegna sárrar og biturrar reynslu á síðustu misserum varðandi það að verið hefur skortur almennt á sálfræðiúrræðum fyrir fólk á öllum aldri, ekki síst hjá ungmennum en líka í fangelsum. Það er allt of sjaldan sem við leyfum okkur að horfa inn í fangelsin og hugsa hvað við getum gert betur þannig að fangelsin okkar séu raunveruleg betrunarfangelsi, þannig að verið sé að byggja upp þá einstaklinga sem eru í íslenskum fangelsum. Það er hægt að gera það á margvíslegan hátt. Sem betur fer sjáum við ákveðna þróun t.d. varðandi menntunarúrræði sem hafa mjög mikið að segja, og einnig ýmis önnur úrræði, en skort hefur á sálfræðiþjónustu. Með fullri virðingu fyrir þeim tveimur sálfræðingum sem eru starfandi hjá Fangelsismálastofnun þá eru fangar á Íslandi yfir eða í kringum 400 talsins.

Það er því stór hópur sem þarf að sinna og við vitum að það er nákvæmlega sá hópur sem þarf að vita að hann hefur aðgengi að svona þjónustu, bæði fyrir fangana sjálfa, uppbygginguna, til að fá ráð, stuðning, utanumhald innan fangelsanna, en ekki síst til að finna að verið er að byggja fólk upp til þess að það geti orðið virkir þátttakendur í samfélaginu þegar út er komið. Það skiptir eiginlega öllu máli að mínu mati að fólki geti liðið betur þegar það kemur úr fangelsi og ekki síður að samfélagið taki því opnum örmum og reyni að hjálpa því í þann farveg sem það kýs og vill fara í. Aukin sálfræðiþjónusta er nauðsynleg og þingsályktunartillaga þingmanna Samfylkingarinnar er þörf og góð og ég fagna henni sérstaklega.

Ég sé að í þingsályktunartillögunni er reyndar talað um þrjú stöðugildi sálfræðinga. Mínar upplýsingar segja að sálfræðingarnir séu tveir, en það er gott ef þeim hefur fjölgað á síðustu misserum. Við vitum sem höfum heimsótt fangelsin reglulega, Litla-Hraun og fleiri staði, að þetta er eitt af því fyrsta sem fangar nefna við okkur þingmenn, þ.e. skortur á sálfræðiþjónustu. Það hefur verið þannig alveg alla vega frá því að ég byrjaði á þingi.

Auðvitað hefur margt breyst til batnaðar, sem betur fer, en þetta er hópur sem er ósköp auðvelt að ýta til hliðar þegar á að forgangsraða. Það er ósköp þægilegt að setja fangana til hliðar og segja: Við þurfum að einbeita okkur að öðrum málum. Ég vil mótmæla þeirri nálgun. Þess vegna undirstrika ég að það er fagnaðarefni að fá tækifæri hér í þingsal til að ræða það hvernig við náum að byggja upp samfélag okkar, og fangelsin eru hluti af samfélaginu.

Ég vil lýsa því yfir að við í Viðreisn styðjum að farið verði mjög vel yfir þessa þingsályktunartillögu og henni tryggður viðunandi farvegur með það að markmiði að tryggja betur sálfræðiþjónustu í fangelsum sem allir fangar hafa aðgang að.

Í sjálfu sér er ekki miklu við þetta að bæta öðru en því að ég vonast til að það verði þverpólitísk samstaða um þetta mál. Það er nægur tími til að vinna það þannig að hægt sé að fá það fram strax á vorþingi. Við munum veita liðsinni okkar til að svo verði.