149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

sálfræðiþjónusta í fangelsum.

137. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þá góðu umræðu sem hefur átt sér stað um þessa þingsályktunartillögu okkar í þingflokki Samfylkingarinnar. Það er mjög mikilvægt að ræða málefni fanga og ég tek svo sannarlega undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, ég er reiðubúin að gera það hvenær sem er af því að málefni fanga eru mjög margvísleg og snerta marga fleti. Þetta tiltekna atriði, sálfræðiþjónusta í fangelsi, er bara agnarlítið brot af öllum þeim viðfangsefnum sem við getum rætt í málefnum fanga. Eins og ég kom inn á í fyrri ræðu þá er þetta stór hópur. Það eru 195 fangelsispláss á Íslandi í dag. Þá erum við ekki að tala um þá sem eru á reynslulausn sem í dag eru 164. Þetta eru næstum því 400 manns sem við erum að fjalla hérna um og tökum við nú tíma Alþingis í að tala um minni hópa en þarna eru.

Þetta er hópur rétt eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á sem kannski á sér ekki háværa málsvara. Vissulega hefur Afstaða, félag fanga, verið gríðarlega öflugt í að vekja athygli okkar á málstað þeirra og þeim réttarbótum sem við þurfum að fara í. En ég held að við á þinginu getum gert betur. Það þarf einmitt að tala um þessa virkni alla, um nám og þá möguleika sem þessir einstaklingar hafa til vinnu og annarrar virkni. Ég vil líka ræða sérstaklega um málefni kvenfanga sem ég tel að eigi oft við annars konar erfiðleika að etja en karlfangar. Þó að það sé ekki algerlega aðgreinanlegt er það oft og tíðum fjölþættari vandi sem kvenfangar glíma við.

Sumir telja að það sé best að herða refsingar til muna og helst að henda lyklunum. Ég held að þeim fari mjög fækkandi. Ég held að við getum öll verið sammála um að við þurfum að standa okkur betur í þessu.

Hvað varðar það sem kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, að treysta Fangelsismálastofnun fyrir verkefninu og af hverju að ákveða að það skuli vera sálfræðingur að jafnaði starfandi í hverju fangelsi, þá er það einfaldlega til að byggja upp meðferðarsamband, til þess að byggja upp traust þannig að fanginn sem er í afplánun og býr á þessum stað um ákveðinn tíma venjist því að þarna sé greið leið. Það sé hægt að fara og sækja þjónustu og aðstoð til einhvers sem er á staðnum daglega. Þannig myndast ákveðið traust og þegar á bjátar getur viðkomandi sálfræðingur gripið einstaklinginn. Það er ekki þannig að líðan fanga sé línuleg, það er vel þekkt að þeir sem eru t.d. í mjög langri afplánun, þurfa að sitja af sér þunga refsingu, falli skyndilega og án aðdraganda niður í mikið svartnætti. Það þarf ekkert að gerast í byrjun, það getur alveg eins gerst einhvers staðar í miðju afplánunar. Þá skiptir máli að búið sé að mynda þetta traust, að það sé auðveld aðkoma og auðvelt aðgengi viðkomandi af því að við viljum jú reyna að hlúa almennilega að þessum einstaklingum.

Við erum með bráðatilvik inni í fangelsunum. Þá getur verið mjög erfitt að þurfa að panta tíma og bíða vikum saman. Það þarf að mynda traust, líka vegna þess að þarna eru einstaklingar sem kannski sækja sér ekki þessa þjónustu eða hafa litla trú á henni, þannig að það þarf að venja fólk við það að treysta sálfræðingi fyrir raunum sínum. En þó að það sé ekki brýn þörf á hverjum degi þá snýst þetta líka um það, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, að viðfangsefni og verkefni þeirra sálfræðinga sem núna starfa hjá Fangelsismálastofnun og hafa aðsetur í höfuðstöðvum Fangelsismálastofnunar í Reykjavík eru mjög mörg önnur en að vera bara í klínískri sálfræði og í sálfræðiviðtölum. Þessir einstaklingar geta vel sinnt þessum störfum sínum þó að þeir séu staðsettir á staðnum. Með því að vera staðsettir í fangelsinu sjálfu þá byggja þeir upp þetta traust þótt þeir taki ekki viðtöl á hverjum degi. Þú byggir upp þetta traust með því að fara fram, þú ert að ná sér í kaffibolla, þú ert í einhverjum samskiptum við þennan hóp. Þá finna menn meira fyrir alls konar sveiflum sem eiga sér stað inni í fangelsinu í afplánun, innan hópsins. Mögulega kemur nýr fangi sem breytir algerlega stemningunni í hópnum og sálfræðingur sem hefur fasta viðveru á staðnum getur greint þetta mjög hratt og örugglega en ekki sá sálfræðingur sem er staðsettur á skrifstofu vestur í bæ í Reykjavík.

Það er þess vegna sem ég tel þetta vera mikilvægt, en það er ekki bara þess vegna, það er líka vegna þess, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á, að það er tilhneiging til þess að skera svona þjónustu út þegar mögulega þrengir að. Þessi þjónusta er einhvern veginn sú sem fellur á milli. Þá er betra að vera búinn að taka ákvörðun um að þetta sé fastur liður af því að sálfræðiþjónusta og sálfræðimeðferð er ótrúlega mikilvæg fyrir þá einstaklinga sem mögulega koma úr harðri neyslu eða hafa brothættan bakgrunn, ef svo má segja. Auðvitað eru það ekkert allir. Þetta er auðvitað ólíkur hópur einstaklinga eins og við erum öll, en staðan er engu að síður sú að þessir einstaklingar eru komnir inn í fangelsi. Þau eru komin í afplánun og það kemur ekki til af engu. Maður fær ekki þunga refsingu án aðdraganda skyldi ég halda. Það er yfirleitt alltaf eitthvað sem býr að baki, fyrir utan það sem kom fram áðan að 90% þeirra sem afplána refsingu, samkvæmt upplýsingum á vef Verndar, eiga við einhvers konar fíknierfiðleika að stríða.

Að öðru leyti þá vísa ég til þessarar þingsályktunartillögu og vonast eftir góðri vinnu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.