149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

aðgengi að efnisveitu og myndmiðlaþjónustu Ríkisútvarpsins í útlöndum.

103. mál
[17:22]
Horfa

Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um aðgengi að efnisveitu og myndmiðlaþjónustu Ríkisútvarpsins í útlöndum. Ásamt mér flytja tillöguna hv. þingmenn Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Samkvæmt 1. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, er RÚV falið að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. RÚV er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Er kveðið nánar á um hlutverk og skyldur félagsins í II. kafla laganna.

Með skírskotun til lögbundins hlutverks RÚV er markmið þingsályktunartillögunnar að gera sem stærstan hluta þjónustu stofnunarinnar, svo sem sjónvarps- og útvarpssendingar og barnaefni, aðgengilegan fyrir einstaklinga sem eiga lögheimili hér á landi en eru staddir tímabundið erlendis. Flutningsmenn telja að slíkt aðgengi stuðli að verndun íslenskrar tungu og viðgangi tungumálsins. Þess vegna skuli stefnt að því að hafa aðgengi að þjónustunni eins opið og unnt er. Þetta skiptir máli. Fjölmargir Íslendingar flytja tímabundið til skemmri eða lengri dvalar erlendis. Margir eldri borgarar og ýmsir aðrir hafa vetursetu í fjarlægum löndum en greiða skatta og skyldur á Íslandi, þar á meðal útvarpsgjald það er stendur straum af starfsemi Ríkisútvarpsins. Margir hafa þurft að fjárfesta í sérstökum búnaði til að ná þessum útsendingum RÚV.

Nauðsynlegt er að koma til móts við þennan hóp svo að hann hafi sama aðgang að efnisveitu og myndmiðlaþjónustu Ríkisútvarpsins og aðrir sem greiða fyrir hana. Æskilegt væri að sérstakt vefsvæði yrði stofnað fyrir notendur utan Íslands þar sem þeir gætu skráð sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli og þannig haft aðgang að efninu. Svo virðist sem slík vinna sé að einhverju leyti hafin því fram kemur á vef RÚV að allt útvarpsefni af Rás 1, Rás 2, Rondó og á vegum KrakkaRÚV eigi að vera aðgengilegt erlendis án takmarkana. Það eigi t.d. að vera aðgengilegt fyrir tilstilli RÚV-viðbótar, þ.e. apps, eða á vegum þjónustuveitna eins og Tuneln.

Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar hvetja mennta- og menningarmálaráðherra fyrir hönd Ríkisútvarpsins til að kanna allar lausnir sem geri aðgengi að efnisveitu og myndmiðlaþjónustu stofnunarinnar eins opið erlendis og mögulegt er, til að mynda með notkun rafrænna skilríkja eða Íslykils eins og áður sagði. Lagt er til að ráðherra kynni áætlun í þessum efnum eigi síðar en í janúar 2019.

Að lokinni umræðu legg ég til að tillagan fari til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.