149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi sem allur þingflokkur Pírata stendur að, raunar að hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni undanskildum en varamaður hans er á þessu frumvarpi. Var það einfaldlega vegna þess að hv. þingmaður var fjarverandi en þingflokkur Pírata stendur allur að baki þessari tillögu til þingsályktunar um notkun og ræktun lyfjahamps.

Málið hefur verið lagt fram tvisvar áður, á 147. og 148. löggjafarþingi, og er nú endurflutt óbreytt. Ég flyt þetta mál fyrir hönd hv. þm. Halldóru Mogensen sem er fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps. Ég ætla að drepa hér aðeins niður í inngangi greinargerðar frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Með tillögunni er ráðherra falið að semja frumvarp til laga sem ráði bót á núverandi lagaumhverfi með því að heimila notkun og ræktun lyfjahamps. Við undirbúning frumvarpsins er mikilvægt að gætt verði allra þeirra þátta sem skipta sköpum við stefnubreytingu sem þessa. Reynsla nágrannaþjóða af setningu reglna um notkun lyfjahamps er rík og því mikilvægt að ráðherra nýti reynslu þeirra þjóða þar sem vel hefur tekist til. Nauðsynlegt er að með frumvarpi ráðherra verði tryggt að ræktun og dreifing verði örugg og að þeim aðilum sem hafi hana með höndum, sem og sjúklingum, verði ekki refsað.

Lyfjahampur er heiti yfir kannabis eða hampjurt sem notuð er í læknisfræðilegum tilgangi. Notkun hampjurtarinnar sem lyfs á sér langa sögu auk þess sem hampjurtin hefur margvíslegt annað notagildi. Á síðastliðnum árum og áratugum hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir á læknisfræðilegum áhrifum lyfjahamps og ábata fyrir sjúklinga af notkun hans. Rannsóknir þessar hafa sýnt fram á að lyfjahampur hefur raunverulegt notagildi, m.a. í meðferð gegn krabbameini, taugasjúkdómum og öðrum alvarlegum sjúkdómum.

Vímuefnalöggjöf á Íslandi hefur að mestu leyti haldist óbreytt undanfarna áratugi, fyrir utan einstaka hækkanir á refsiramma. Þar sem ljóst er að löggjöf víðs vegar um heiminn færist nú í átt að afnámi á þeirri bannstefnu sem hefur verið meginreglan í vímuefnalöggjöf er vert að skoða hvaða skref væri rétt að stíga hér á landi og hvaða úrbóta er þörf.“

Þess er rétt að geta líka að notkun kannabisjurtarinnar var lögleg t.d. í Bandaríkjunum, sem er kannski upprunaland þeirrar bannstefnu sem hefur verið við lýði síðan 1960 á alþjóðavísu en kannski aðeins lengur í Bandaríkjunum sjálfum. Bannstefnan á rætur sínar að rekja til gríðarlegs rasisma og ofsókna á hendur fólks af mexíkönskum uppruna og blökkumanna í Bandaríkjunum. Þar var hún notuð til þess að ná í meira fjármagn fyrir stofnun sem hafði séð um bannstefnuna gagnvart áfengi en missti þá fjármuni þegar áfengi var aftur leyft og þurfti að finna sér nýjan sökudólg til að eltast við til þess að fá fjármuni. Þá var auðvelt að nýta sér hræðslu fólks við hið ókunna og við þá sem höfðu annan litarhátt en ráðandi öfl á þessum tíma.

En ég held áfram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í því samhengi mætti líta til nýlegra vísindarannsókna og reynslu nágrannalanda okkar af setningu reglna um slík efni, bæði vegna notkunar sem lyfs og til almennrar notkunar. Meðal þeirra ríkja sem nú hafa heimilað notkun lyfjahamps eru Austurríki, Belgía, Kanada, Grikkland, Tékkland, Chile, Úrúgvæ, Kólumbía, Finnland, Þýskaland, Ísrael, Ítalía, Holland, Argentína, Ástralía, Króatía, Kýpur (fyrir krabbameinssjúklinga), Danmörk, Georgía, Jamaíka, Lúxemborg, Makedónía, Malta, Noregur, Perú, Pólland, Portúgal, San Marínó, Sviss, Zimbabwe og Spánn auk flestra ríkja Bandaríkjanna.“

Hvað varðar gildandi lög og reglur hér á landi stendur í greinargerð að staðan sé sú að notkun hampjurtarinnar er ólögleg samkvæmt 2., 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, og einnig samanber lög nr. 13/1985 og 68/2001, og 2. gr., samanber 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Sú flokkun jurtarinnar getur ekki talist rétt að mati flutningsmanna, sérstaklega þegar viðurkennt hefur verið að mögulegt notagildi hennar sem lyfs er mun meira en ef hún væri flokkuð sem ávana- og fíkniefni. Þá kemur núverandi flokkun í veg fyrir að hæfir aðilar geti nýtt jurtina til rannsókna.

Virðulegi forseti. Hér komum við líka að atriði sem skiptir talsverðu máli þegar kemur að þessari þingsályktunartillögu og það er meðalhófsreglan þegar kemur að beitingu refsiaðgerða, sérstaklega þegar fólk notar sér þessa jurt sér til lækninga og hefur til þess sjálfsákvörðunarrétt og hefur líka rétt á bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu. Af þeim sökum getur það ekki talist falla undir meðalhófsregluna að refsa fólki fyrir að leita sér lækninga, að refsa fólki fyrir að leita sér meðferðar við alvarlegum kvillum sem fylgja alvarlegum sjúkdómum þar sem sýnt hefur verið fram á notagildi þeirra.

Þessi tillaga gengur að sjálfsögðu bara út á þá leið að hægt væri að nota þessa jurt í læknisfræðilegum tilgangi og ekki er verið að kalla á almenna leyfisveitingu eða eitthvað slíkt og heldur ekki afglæpavæðingu þrátt fyrir að þverfaglegur hópur allra hlutaðeigandi, þ.e. í réttarvörslukerfinu, Rauði krossinn, lögreglan, dómsmálaráðuneytið og þingmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fara þá leið að afglæpavæða notkun vímuefna til einkanota. En þetta mál snýr ekki því heldur einfaldlega að því að sérfræðingar geti ávísað þessu lyfi fyrir þá sem það vilja og fyrir þá sem hafa þörf fyrir það.

Áfram segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„Núverandi lagaumhverfi kemur því í veg fyrir að sjúklingar sem notið gætu góðs af meðferðareiginleikum lyfjahamps geti nálgast efnið á lögmætan og öruggan hátt. Í sumum tilfellum mætti jafnvel halda því fram að staða lyfjahamps sem ólöglegs efnis gangi gegn ákvæðum laga um réttindi sjúklinga til þess að fá bestu mögulegu meðferð og heilbrigðisþjónustu sem völ er. Í ljósi þess að fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á notagildi lyfjahamps í meðferðarskyni er full ástæða til þess að setja reglur um notkun hans, sjúklingum til heilla.

Undanfarin ár hafa farið fram miklar rannsóknir á notagildi lyfjahamps sem meðferðarúrræðis fyrir ýmiss konar sjúkdóma og heilsufarsvandamál. Niðurstöður þeirra hafa í síauknum mæli sýnt fram á notagildi jurtarinnar. Þá hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreint cannabidiol, eitt af virku efnunum í lyfjahampi, sem lyf sem hafi mikla meðferðarmöguleika við flogaveiki.

Af öðru notagildi lyfjahamps má vísa til rannsóknar sem kynnt var árið 2010 af rannsakendum í Háskólanum í Kaliforníu. Við gerð rannsóknarinnar var stuðst við staðla bandaríska lyfjaeftirlitsins, en niðurstöður hennar sýndu fram á að lyfjahampur væri ákjósanlegt fyrsta meðferðarúrræði fyrir sjúklinga sem þjást af taugakvillum og öðrum alvarlegum sjúkdómum. Nokkrar rannsóknir á vegum miðstöðvarinnar mældu áhrif plöntunnar á taugaverki, verki í tengslum við krabbamein, sykursýki, HIV/alnæmi, mænuskaða og marga aðra örkumlandi sjúkdóma. Þessar rannsóknir benda allar til þess að hampjurtin dragi úr sársauka, jafn vel eða betur en þau lyf sem notuð eru í dag.

Í ýmsum öðrum rannsóknum sjálfstætt starfandi lækna og vísindamanna hafa einnig verið könnuð áhrif hampjurtarinnar á mismunandi sjúkdóma og læknisfræðileg virkni hennar. Þar á meðal má benda á rannsókn Shaheen E. Lakhan og Marie Rowland sem birtist í tímaritinu BMC Neurology í desember 2009. Rannsóknin sýndi fram á að notkun hampjurtarinnar fyrir sjúklinga sem þjáðust af MS dró úr neikvæðum áhrifum sjúkdómsins. Þá hafa sambærilegar rannsóknir sýnt fram á notagildi hampjurtarinnar við að draga úr einkennum mígrenis, en rannsókn þess efnis birtist í bandaríska tímaritinu Headache: The Journal of Head and Face Pain í maí 2015.

Þegar kemur að vísindarannsóknum á notagildi hampjurtarinnar eru samantektarrannsóknir einna mikilvægastar, þ.e. rannsóknir þar sem skoðaður er mikill fjöldi annarra rannsókna og niðurstöður þeirra greindar til að gefa heildstæða mynd af þeim vísindalegu gögnum sem liggja fyrir. Grein um slíka rannsókn birtist árið 2013 í tímaritinu Pharmacotherapy undir heitinu „Lyfjafræðileg og klínísk áhrif lyfjahamps“ — svo ég þýði lauslega, með leyfi forseta. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að hampjurtin hefði óumdeilanlegt læknisfræðilegt gildi en að í lagaumhverfi þar sem notkun jurtarinnar er óheimil og refsiverð væri erfitt að fylgjast með og mæla áhrif af notkun hennar.

Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram frumvarp að lögum sem heimili notkun og ræktun lyfjahamps. Með því er fyrsta skrefið að setningu reglna um lyfjahamp stigið. Nauðsynlegt er að breyting sem þessi sé vel ígrunduð og er margra mismunandi lagabreytinga þörf. Þess vegna er ráðherra falið að semja það frumvarp sem lagt skuli fram. Fjölmargar þjóðir hafa þegar stigið þau skref sem hér er fjallað um. Nauðsynlegt er fyrir íslensk stjórnvöld að taka mið og mark af þeim framförum sem hafa orðið í málaflokki þessum. Það getur ekki talist í takt við framfarir þær sem eiga sér nú stað í hinum vestræna heimi að árið 2018 að enn sé verið að refsa sjúklingum sem kjósa sér þessa meðferðarleið.

Nauðsynlegt er að í stjórnarfrumvarpi ráðherra verði að finna breytingu á 6. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni. Þá mun ráðherra þurfa að setja reglugerð á grundvelli laganna sem setur stjórnvaldsfyrirmæli um hvernig notkun og ræktun skuli háttað. Setning slíkra reglna ein og sér er ekki svo flókin að til þess þurfi langan undirbúningstíma, en engu að síður er rétt að ráðherra heilbrigðismála og ráðuneyti hans undirbúi lagafrumvarp þetta.“

Í lokin, frú forseti, vil ég árétta nokkra hluti sem ég tel líklegt að muni koma fram í umræðu um þetta mál eða hafa alla vega komið fram í umræðum um mál sem þessi. Má þar nefna ítrekaðar ábendingar þess efnis að notkun lyfjahamps eða notkun kannabisefna yfir höfuð auki líkurnar á geðhvarfasýki. Þess ber að geta strax við upphaf þessarar umræðu að sönnunargögn benda einfaldlega ekki í þá átt. Hins vegar hefur verið sýnd fylgni á milli þess að einstaklingar sem þjáist af geðhvarfasýki leiti í kannabisefni. Það hefur ekki verið sýnt fram á orsakasamhengi þar á milli, þ.e. að með kannabisefni verði til geðhvarfasýki. Vísa ég m.a. til svars landlæknis við spurningu Ólafs Skorrdals um akkúrat þetta efni þar sem fram kemur að ekki sé hægt að sýna fram á þessi orsakatengsl. En þar að auki hafa birst nýlegar rannsóknir sem hrekja þessar mjög svo algengu staðhæfingar.

Þar að auki vil ég benda á að í Denver í Colorado þar sem kannabis hefur verið leyfilegt í einhvern tíma hefur átt sér stað 25% lækkun á notkun ópíóíða við verkjum og þar hefur ekki átt sér stað nein aukning þegar kemur að geðhvarfasýki. Er þetta eitt af fjölmörgum dæmum sem sýna fram á gagnsemi kannabisefna í stað hinna hefðbundnu ópíóíðaverkjalyfja sem við hér á Íslandi erum nú sjálf að takast á við afleiðingarnar af, sem og að tíðni geðhvarfasýki eykst ekki þar sem kannabis er aðgengilegt og leyfilegt.

En þetta voru nokkur atriði sem ég vildi drepa á. Þar að auki vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að við sem löggjafi getum ekki viðhaldið refsiákvæðum og refsiaðgerðum gagnvart þeim sem kjósa sér læknismeðferð eða meðferð við sársauka sem þeir telja besta fyrir sig og sína heilsu og refsa þeim með fangelsisdvöl eða með því að fara á sakaskrá. Ég tel það ekki standast meðalhófsregluna um beitingu refsiákvæða og þar af leiðandi ættum við hið minnsta að falla frá refsiákvæði gagnvart notkun kannabis í lækningaskyni, viljum við vera réttarríki sem tekur umboð sitt til að refsa borgurum sínum alvarlega.