149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[17:40]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég er að flytja þetta mál fyrir hönd hv. þm. Halldóru Mogensen og hef ekki náð að kynna mér umsagnir umsagnaraðila í þaula til að geta svarað nákvæmlega um hversu mikið tillit hafi verið tekið til þeirra.

Hins vegar er rétt að geta þess að frá því á 148. löggjafarþingi er þetta mál óbreytt. Það kemur fram í upphafi greinargerðarinnar að það hefur alla vega ekki breyst.

Hins vegar er þess að geta, að sjálfsögðu, að þetta er þingsályktunartillaga sem felur heilbrigðisráðherra, ráðherra málaflokksins, gríðarlega mikið vald til að taka tillit til allra þeirra þátta sem þarf að taka tillit til við gerð slíkra laga. Það væri hæstv. ráðherra að sjálfsögðu í sjálfsvald sett að sníða það eftir því sem hagsmunaaðilar hafa um það að segja.