149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[17:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef fullan skilning á því að þar sem hv. þingmaður er að flytja þetta fyrir annan hv. þingmann þekki hann ekki allar umsagnirnar. En ég skautaði aðeins yfir þær og í umsögn embættis landlæknis frá því á 148. þingi er einmitt farið yfir hvað þurfi til að við viðurkennum lyf hér á landi, og er vísað sérstaklega í Lyfjastofnun Evrópu, sem ekki hefur viðurkennt hamp sem lyf. Það held ég að enginn hafi gert. Í einhverri umsögninni sem ég renndi yfir í fljótheitum áðan stóð eitthvað á þá leið að þau lönd sem lögleitt hafa þetta sem lyf hafi skautað fram hjá öðru regluverki sem við höfum almennt um lyf. Það hefur verið pólitísk ákvörðun viðkomandi löggjafa í þeim efnum.

Þannig að mig langar að heyra hjá hv. þingmanni og framsögumönnum: Er það í rauninni það sem hv. þingmenn vilja með þessu? Að við förum aðrar leiðir með að festa í lög þetta lyf með einhverjum hætti? Út fyrir það regluverk sem við erum vön að hafa? Eða vilja hv. þingmenn kannski fyrst og fremst fjalla um það og fá það fram að fólk geti ræktað þetta hér á landi og nýtt það eins og það kýs, hvort sem það er til læknismeðferðar eða annars?

Því að það er líka ágætlega farið yfir það í umsögnum hvaða kröfur eru gerðar þegar um er að ræða lyf, bæði hvað regluverkið varðar, hvernig þarf að framleiða slíkt, hvaða gæðakröfur og annað slíkt þarf að uppfylla. Það er alveg töluvert. Ég velti fyrir mér hvort hv. flutningsmenn hafi meira pólitísk skilaboð sem þeir hafa viljað koma áleiðis með þessari þingsályktunartillögu.