149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Því er til að svara að að sjálfsögðu er framlagning þessa máls pólitískt atriði af hálfu Pírata, en að öðru leyti hefur átt sér stað talsverð þróun í þessum málaflokki. Kannabis til lækninganota hefur í talsvert auknum mæli notið viðurkenningar. Nú síðast var aðallæknisfræðilegi embættismaðurinn í Englandi — ég á mjög erfitt með að þýða „Chief Medical Officer for England“ — Dame Sally Davies ... (Gripið fram í.) — Landlæknir Englands. Hún lýsti því yfir að sannanir fyrir læknisfræðilegu notagildi kannabis hafi verið skoðaðar mjög gaumgæfilega og að það væri „robust“, eins og hún kallar það, eða mjög sterkt að notagildið væri til staðar, bæði samkvæmt mjög virtum, alþjóðlegum og vísindalegum stofnunum sem og regluverkandi stofnunum. Sömuleiðis samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Þannig að þetta nýtur sífellt aukinnar viðurkenningar.

Svo get ég líka vísað í bréf frá landlækni sem ég vísaði til í framsöguræðu minni þar sem vissulega kemur fram að landlæknir á þeim tíma sem hann ritaði þetta bréf, sem var 2009, ef ég man rétt, taldi ekki hægt að ávísa kannabis sem lyfi í stöðunni eins og það var þá. En hann sagði þó, með leyfi forseta:

„Viðurkenndar ábendingar eru [við notkun á kannabis] ógleði og uppköst af völdum krabbameinsmeðferðar, lystarleysi hjá alnæmisjúklingum, taugaverkir hjá sjúklingum með MS og viðbót við verkjameðferð hjá sjúklingum með langt gengna, illkynja sjúkdóma.“

Í því bréfi kemur einnig fram að landlæknir telur möguleika á að ávísa lyfinu í sérstökum, alvarlegum tilfellum þar sem önnur lyf hafa ekki notið virkni.

Og ég endurtek að þetta er þingsályktunartillaga þar sem ráðherra er falin útfærsla á nákvæmlega hvernig þetta stendur.