149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[17:54]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér enn einu sinni lyfjahampinn. Ég ætla að vera á lágstiginu, ekki á hástigi, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir var nánast að vara okkur við, ég tek undir það, og horfa til samfélagsins aðeins.

Það eru ýmis efni sem við höfum áhyggjur af, bæði áfengi og tóbak. Komið hefur í ljós að ungt fólk hefur skorið niður þá neyslu samkvæmt öllum tölum sem mér eru kunnar. Þegar kemur að fíkniefnaneyslu er staðan dálítið önnur, þar hefur neyslan frekar aukist og það er þá einkanlega neysla sem veldur alvarlegum áhrifum. Ég fletti Morgunblaðinu í dag, rakst þar á grein um nákvæmlega þetta. Þar voru útdráttarsetningar sem sögðu sem svo, með leyfi forseta:

„Neysluhópurinn orðinn breiðari. Mikil fjölgun í dauðsföllum hjá ungu fólki. Aukin neysla og aukin harka síðustu ár.“

Af hverju nefni ég þetta? Jú, þetta er ramminn. Þetta eru ytri aðstæðurnar sem við erum að ræða um; lyfjahamp, maríjúana, hass eða kannabis, hvað sem við viljum nefna það. Þetta er ramminn sem við erum að ræða um. Þetta eru samfélagsskilyrðin sem eru í kringum okkur og við þurfum að horfa til þeirra þegar við ræðum hvernig skuli fara með viðbrögðin við kannabis.

Aðgengi skiptir verulegu máli. Við höfum rætt það í sambandi við áfengið og við getum rætt það í sambandi við aðgengi að þessum vörum, hvort sem það er heimaræktun eða eitthvað annað. Og annað líka sem hefur verið komið hér á framfæri, það er lögleiðing ákveðinna efna. Þá er spursmálið: Er verið að lögleiða þessi efni sem lyf? Eða er verið að lögleiða þessi efni almennt eins og hefur gerst í allmörgum löndum og kom fram hjá hv. þm. Þórdísi Sunnu Ævarsdóttur? Við horfum einfaldlega á þessi efni og metum skaðsemi þeirra, bæði samfélagslega og á einstaklinginn sjálfan. Ég ætla að fullyrða það, þó að ég sé jarðvísindamaður en ekki læknir eða lyfjafræðingur, að efni sem heitir THC og allir vita að er í þeim vörum er beinlínis skaðlegt fólki, það er skaðlegt heilanum. Fjölmargar rannsóknir sýna nákvæmlega fram á það og ekkert annað.

Jú, jú, svo getur maður sagt sem svo að ákveðin sókn sé í fíkniefni í öllum samfélögum og við þurfum að mæta því á skynsamlegan hátt. En við þurfum alltaf að hafa þetta í bakhöndinni, efnið sjálft, hvað það gerir og ekki síður samfélagsskilyrðin sem ég nefndi áðan.

Svo getum við skoðað þennan lyfjaþátt sem er svolítið sér á parti. Á lyfjahamp, eða kannabis sem notadrjúgt lyf, bera sjálfsagt einhverjir brigður. Ég get það ekki einfaldlega vegna þess að ég hef ekki til þess þekkingu. Það má sjálfsagt ræða betur um það hvort eigi að leyfa það sem lyf til notkunar, en það hefur komið fram að nú til dags eru önnur lyf komin í staðinn. Að hve miklu marki það er, er ég ekki heldur dómbær á. En nefnd voru úr ræðustóli lyf sem ég held að læknar kannist við og viti nákvæmlega hvað gera.

Segjum að lyfjahampur væri leyfður, þ.e. kannabis sem lyf. Hvað er þá að því að það lúti sömu lögmálum og önnur lyf? Aðgengið er þá nægt í gegnum lyfsölur. Það eru lyfseðlar, ávísanir, á þau lyf eins og öll önnur lyfseðilsskyld lyf. Ég get ekki séð að aðgengi sjúklinga sem þurfa og þyrftu að nota þetta lyf sé á einhvern máta skert eða takmarkað með því að þessu sé hagað eins og sala og notkun hverra annarra lyfja. Svo það sé sagt skora ég eiginlega á flutningsmenn að útskýra fyrir mér af hverju það væri svona óskaplega mikilvægt að leyfa þá jafnvel ræktun þess, hvort það er heima eða á einhverjum sérstökum stöðum. Er einhver ávinningur í því þegar þetta er til í tonnavís, sennilega sem lyf, viðurkennt lyf, eða ígildi þess, framleitt úti í heiminum? Ég lít svo á að ræktun sé óútskýrð fyrir mér, hvers vegna hún er nauðsynleg hér innan lands, hvort sem það er heima eða á einhverjum öðrum stöðum.

Ég sé heldur ekki hvað þetta mál hafi með afglæpavæðingu að gera. Það er jú auðvitað innifalið verði þetta að leyfðu lyfi, þá er auðvitað um afglæpavæðingu þess að ræða, en hvort þetta tengist svo afglæpavæðingu neyslu kannabis á annan hátt, ég sé ekki tengslin heldur við þá hugmynd sem ég er í sjálfu sér ekkert endilega á móti, því að ég er alveg sammála því að það er mjög harkalegt að refsa fólki fyrir að finnast með eitt gramm af hassi í fórum sínum. En það er annar handleggur.

Að lokum. Ég tel algerlega óásættanlegt að samþykkja tillöguna. Það er einfaldlega svo að ræktun innan lands, hvort sem það er heima eða á öðrum stöðum, opnar fyrir aðgengi og ýtir undir það sem ég kalla andvaraleysi eða jákvæða afstöðu til þessa efnis, sem ég tel hættulegt viðhorf þegar um kannabis er að ræða. Það er ekkert til sem heitir skárra fíkniefni að þessu leyti inn í þá löngu röð af fíkniefnum sem eru til með tilheyrandi stigmagnandi neyslu sem við höfum ótal dæmi um í öllum fjölskyldum, meira eða minna, þ.e. fólk sem hefur hafið neyslu sína með kannabisefnum og endar svo allt annars staðar. Lyf í þessu sambandi skipta ekki máli. Þetta er miklu stærra mál en svo.

Ég vil setja lýðheilsuna í fyrsta sæti, frú forseti, og spyr einfaldlega: Hvar er meðalhófið þegar kemur að henni? Ég held að ansi langt sé í það. Og ef það er pólitískt atriði að leggja fram þessa þingsályktunartillögu þá finnst mér það einfaldlega vond pólitík. Ég mun andæfa henni með öllum ráðum.