149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[18:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur ræðuna. Hún ræddi aðeins m.a. geðrofseinkenni og geðrof og geðklofa og þess háttar. Hún ræddi líka mikilvægi þess að svona mál væru rannsökuð dálítið vel og ég tek alveg undir það með hv. þingmanni. Það er hins vegar gallinn á nánast öllum athugunum á kannabis og kannabisefnum eða kannabislíkum efnum að rannsóknirnar á þeim hafa verið tiltölulega litlar, þ.e. þar sem þau eru skoðuð beint á móti hvert öðru.

Hins vegar er það svo að í grein þeirra lækna sem ég nefndi áðan fara þeir yfir margar rannsóknir á geðrofi og geðklofa. Einhverjir þeirra voru læknanemar þegar greinin var skrifuð en sá sem var það sem kallað er akkerishöfundur að greininni, Engilbert Sigurðsson, er prófessor í geðlækningum. Niðurstöður þeirra gagnreyndu ritrýndu rannsókna eru allar á einn veg. Og þetta eru ekki bara einhverjir vísindamenn, þetta eru ekki áhugamenn um efnið heldur fólk sem hefur lífsviðurværi sitt af því að lesa svona greinar og kanna gildi þeirra.

Hér kemur spurningin til hv. þingmanns: Væri ekki skynsamlegra að flytja tillögu sem sneri að því að fela íslenskum yfirvöldum, fela ráðuneytinu að hreinlega meta hvort það væru einhverjar forsendur til að skoða frekar þau efni, frekar en að hlaupa strax í það að ákveða að leyfa ræktun og notkun lyfjahamps á Íslandi?