149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[18:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski fullmikið sagt hjá hv. þingmanni að ég hafi engar áhyggjur af því sem gerist erlendis. En það er ekki allt sem gerist erlendis þannig að ég taki það endilega sem gott og gilt fyrir það samfélag sem við erum með á Íslandi. Það er ekki þannig.

Þingmanninum hefur verið tíðrætt um að landlæknir hafi sagt eitt og annað í sambandi við kannabis. Ég vil því leyfa mér að vitna, með leyfi forseta, í niðurlagið á umsögn landlæknisembættisins þegar málið kom síðast fyrir þingið:

„Áður en hægt er að taka upplýsta afstöðu til kannabis til lækninga þarf að framkvæma ýmiss konar rannsóknir eins og lýst hefur verið stuttlega. Ekki er í neinu tilviki hægt að fullyrða að kannabis geri meira gagn en skaða og meðan sú staða er uppi er á læknisfræðilegum forsendum ekki hægt að mæla með slíkri notkun.“

Þetta skrifaði embætti landlæknis í vor og ég geri í sjálfu sér ekki ráð fyrir að umsögn þeirra yrði breytt núna frá því sem þar stendur. En það sem ég hefði talið að flutningsmenn myndu taka tillit til í því er einmitt það sem stendur þarna, að framkvæma þurfi ýmiss konar rannsóknir. Við erum engan veginn þar enn þá, að kannabis til lækninga sé nokkuð annað en það sem ég kom inn á áðan, í besta falli einkennalyf og það einkennalyf þar sem mörg önnur lyf eru gagnreynd og þekkt að hafa mun minni aukaverkanir.