149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Því er til að svara, hv. þingmaður, að ekkert í þessari þingsályktunartillögu meinar hæstv. ráðherra að opna á slíka upplýsingaöflun og slíkar rannsóknir. Það er hins vegar ákveðið atriði sem stendur í vegi fyrir því að þeirra upplýsinga sé aflað á akkúrat þessum tímapunkti og það er að efnin eru algerlega ólögleg og það að hafa þau í fórum sínum getur orsakað a.m.k. það að fara á sakaskrá og jafnvel haft verri afleiðingar fyrir viðkomandi. Sömuleiðis er ómögulegt fyrir heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi að fara í einhvers konar gagnreyndar rannsóknir á því á meðan lagalega staðan er eins og hún er.

Ég vil einfaldlega að leyfa mér að lesa upp þá tillögu til þingsályktunar sem liggur fyrir okkur hér til að ítreka að ekkert stendur í vegi fyrir því að ítarlegar rannsóknir fari fram á undan ef það er mat hæstv. heilbrigðisráðherra að það þurfi til þess að þetta geti orðið.

Í þingsályktunartillögunni stendur nákvæmlega, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga sem heimili notkun og framleiðslu lyfjahamps.

Við undirbúning frumvarpsins verði byggt á reynslu þeirra landa sem heimilað hafa notkun lyfjahamps og litið til allra þeirra þátta sem nauðsynlegt er að huga að við setningu laga og reglna um notkun og ræktun lyfjahamps, þar á meðal innflutnings og sölu á fræjum, ræktun plantna, framleiðslu og vinnslu lyfja úr plöntunum, ávísunar og dreifingar á tilbúnum lyfjahampi og hvernig best megi tryggja einfalt, öruggt og fyrirsjáanlegt regluverk sem verði notendum lyfjahamps til góðs.“

Ekkert í textanum meinar hæstv. ráðherra að ákveða sem svo að talsverðra rannsókna sé þörf við undirbúning á innleiðslunni áður en hún getur farið fram. Ég vil ítreka það í lokin.