149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

45. mál
[18:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég vil einfaldlega koma hingað upp til að fagna því að þetta frumvarp skuli vera endurflutt. Ég styð það heils hugar og tel að allur þingflokkur Pírata geri það einnig. Ég tek undir með hv. flutningsmanni, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, að þessi lög eru barn síns tíma. Ég vil líka ítreka að ég tel að skilyrði um ríkisborgararétt eins og þau eru sett fram núna feli í sér ákveðna lagalega mismunun gagnvart fólki eftir uppruna, þ.e. þjóðerni. Við erum nýbúin að samþykkja vinnulöggjöf sem bannar nákvæmlega slíka mismunun og því er tímabært að uppfæra lögin í samræmi við hana. Sömuleiðis berum við að sjálfsögðu aðrar skuldbindingar, m.a. samkvæmt stjórnarskrá, um að mismuna fólki ekki á grundvelli þjóðernis.

Það er mjög eðlilegt að uppfylla þurfi einhvers konar hæfniskröfur til að fá að starfa hjá hinu opinbera en þær þurfa þá að vera málefnalegar og byggðar á þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra sem starfinu eiga að gegna, má þar nefna tungumálakunnáttu. Það eru hins vegar ómálefnalegar kröfur, sem byggja einungis á þjóðerni, að gera að skýra kröfu um ríkisborgararétt ellegar þurfa að sæta allt öðrum reglum og undanþáguákvæðum en aðrir.

Ég vildi einfaldlega árétta þetta. Mér finnst mér mjög mikilvægt að við reynum að uppfæra eins og við getum alla þá löggjöf sem felur í sér einhvers konar mismunun. Við höfum því miður enn þá mjög mörg dæmi um beina lagalega mismunun gagnvart hópi fólks án þess að málefnaleg rök séu fyrir því. Má þar m.a. nefna lögræðislögin, sem mér hefur orðið tíðrætt um á þessu þingi, en þar er að finna beina lagalega mismunun gagnvart fólki með fötlun, þ.e. geðsjúkdóma. Við höfum enn þá í okkar forneskjulegum lögum lagaákvæði sem heimila frelsissviptingu á þeim grunni einum að einstaklingur þjáist af geðsjúkdómi. Þetta er líka bein lagaleg mismunun, frú forseti, og ég vildi nota tækifærið til að benda enn eina ferðina á það.

Ég tel þetta frumvarp vera dæmi um lagalegan mismunun sem við þurfum að vinna á. Ég held að við ættum að fínkemba löggjöfina okkar á Íslandi og finna öll þau dæmi sem við höfum í henni um lagalega mismunun á grundvelli ómálefnalegra þátta, eins og t.d. þjóðernis, eins og sagan er hér. Við þurfum að fjarlægja slíka mismunun úr lögum og finna málefnalegri rök fyrir lögum okkar en beina mismunun.