149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

45. mál
[18:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á er þetta mjög einfalt og skýrt frumvarp, það er ekki mjög flókið. Mig langar að koma hingað upp til að lýsa því yfir að ég styð það heils hugar.

Ég renndi yfir þær umsagnir sem bárust á fyrri þingum þegar málið var flutt og þær eru allar jákvæðar. Ég sé því í rauninni ekki að okkur sé neitt að vanbúnaði að samþykkja frumvarpið.

Mig langar þó að nota tækifærið og koma því að, sem er reyndar ekki tekið á í lögunum, að það virðist hafa skapast ákveðin hefð fyrir því þegar opinberar stofnanir og ráðuneyti auglýsa ákveðin störf að gerð sé krafa um tungumálakunnáttu þar sem átt er við annað norrænt tungumál. Þetta hafa útlendingar gjarnan bent á, að það að koma hingað til lands, vilja taka þátt í samfélaginu okkar og geta starfað í stjórnsýslunni krefjist þess alla jafna að lærð sé íslenska. Þess sé krafist að fólk af allt öðrum svæðum að leggi á sig íslenskukunnáttuna og þurfi svo líka að kunna dönsku, norsku eða sænsku, sem er ósanngjarnt að mörgu leyti. Þótt það kunni að vera gott í einhverjum tilfellum að innan ráðuneyta eða stofnana séu starfsmenn með kunnáttu í norrænum tungumálum þarf það ekki að vera algilt. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að horfa til þess í starfsmannastefnu hins opinbera hvenær raunverulega þarf að gera kröfu um kunnáttu í norrænum tungumálum og hvenær eðlilegt sé að horfa fram hjá því, einmitt með það í huga að fjölbreyttari hópur hefði þá tök á að sækja um viðkomandi starf. Ég vildi koma því að.

Ég styð frumvarpið heils huga en verð líka að minnast á að ég hef oft velt því fyrir mér hvort nauðsynlegt sé að vera með lagabálk sérstaklega um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Mér hefur oft þótt það sæta furðu, að ástæða sé til þess, að á þeim þáttum sé ekki að megninu tekið í öðrum lögum eða vinnuverndarlöggjöfinni og svo hreinlega í kjarasamningum. En ég veit að það er málinu örlítið óviðkomandi þótt það tengist nákvæmlega þessum lögum.