149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

fasteignalán til neytenda.

135. mál
[19:20]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Frú forseti. Hér er mælt fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um fasteignalán til neytenda. Flutningsmenn frumvarpsins eru alls níu; gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, auk eins þingmanns Sjálfstæðisflokksins, tveggja þingmanna Miðflokksins og tveggja þingmanna Pírata. Frumvarpið er svokallað lyklafrumvarp. Fram kom hjá framsögumanni að slíkt frumvarp hefur komið fyrir þingið a.m.k. fimm sinnum áður en aldrei hlotið afgreiðslu.

Breyting samkvæmt þessu frumvarpi felur í sér að kröfuhafi getur ekki gengið að öðrum eignum lántaka ef veðsett fasteign dugir ekki til fullnustu kröfu hans. Svo einfalt er það. Eftirstöðvar lánsins falla niður gagnvart lántakandanum. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir því að ef skuldaskil slíkra fasteignalána verða með öðrum hætti, svo sem vegna nauðasamninga, greiðsluaðlögunar, gjaldþrots eða við aðrar sambærilegar ráðstafanir sem rekja má til greiðsluvanda neytandans sem leiða til þess að samningur um fasteignalán glatar veðtryggingu í fasteign, verða endalok kröfunnar með sama hætti. Þar er gert ráð fyrir að skilyrði geti skapast til að skuldari geti þannig afhent lánveitandanum hina veðsettu eign, þ.e. að krafan fellur niður eða eftir atvikum eftirstöðvar hennar.

Sjónarmiðið sem liggur þarna að baki er að lánveitandi sem samþykkir veð fyrir kröfu sinni, taki þátt í áhættunni. Hann fellst á veðandlagið sem fullnaðartryggingu fyrir kröfu sinni. Frumvarpið stuðlar þannig að ábyrgri lánastarfsemi þannig að ef lántaki lendir í greiðsluvandræðum sem leiða til þess að hann missir fasteign sína gengur lánveitandinn einungis að veðandlaginu og síðan ekki söguna meir. Hann tekur meiri þátt í áhættunni sem í lánasamningum felst.

Ákvæðið er fortakslaust og á ekki að vera unnt að semja sig undan því í samningum milli aðila. Eins og það hefur verið hingað til getur lánveitandi elt uppi lántakann eftir að veðið er farið á nauðungarsölu og haldið eftirstöðvum lánsins við, eins og það er kallað, og beðið rólegur eftir því að fjárhagur lántaka braggist hugsanlega. Þannig hefur það tíðkast hingað til. Það er auðvitað eðlilegasti hlutur að lánveitandinn sé þannig settur í meira ábyrgðarhlutverk í samningssambandi sínu við lántaka og meti fyrir fram áhættuna af því að veðið dugi ekki fyrir láninu, bæði í upphafi þegar samningurinn er gerður og í framtíðinni.

Þetta frumvarp er til hagsbóta fyrir lántakendur. Það er sanngjarnt og hefði betur verið í gildi hér þegar mesta fárviðrið gekk yfir á árunum eftir hrun þegar gengi krónunnar lækkaði mikið með þeim afleiðingum að gengistryggðir lánasamningar urðu mörgum skuldurum ofviða. Afleiðingarnar þekkjum við. Hér hefur verið leitt í ljós með svari ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Ólafs Ísleifssonar, fyrsta flutningsmanns þessa máls, að 9.195 fasteignir einstaklinga voru seldar nauðungarsölu eða vegna greiðsluaðlögunar á árunum í kjölfar hrunsins auk þeirra sem misstu heimili sín á annan hátt, eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan. Ef meðaltalið er þrír í hverri fjölskyldu er hér um að ræða 45.000 manns hið minnsta sem máttu þola það að missa heimili sín eftir þessi ósköp.

Frú forseti. Þetta frumvarp er sett fram til að leitast við að jafna stöðu lántaka og lánveitenda þótt ekki væri nema örlítið. Eins og við vitum er staða lánveitenda á allan hátt sterkari. Staða hans er varin af hlöðnum múr réttarkerfisins sem ver ekki bara skuldina heldur ófyrirsjáanlegar fjárupphæðir til langrar framtíðar sem bætast við vegna verðtryggingarinnar. Það er mál að linni í þessum efnum, frú forseti. Það mál til komið að lánveitendur axli þótt ekki sé nema hluta ábyrgðarinnar á lánasamningunum. Brýn nauðsyn er á að lögfesta ákvæði frumvarpsins og stilla upp vörnum ef eitthvað gerist í líkingu við það sem gerðist hér á árunum eftir hrun.