149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

fasteignalán til neytenda.

135. mál
[19:31]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (Flf):

Frú forseti. Ég þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem hafa fjallað með jafn yfirgripsmiklum hætti og raun ber vitni um frumvarpið og ég er þeim mjög þakklátur fyrir þá mikilvægu umræðu sem tókst um málið. Ég tel að sú umræða verði gott veganesti fyrir hv. þingnefnd þegar hún fer yfir málið.

Frú forseti. Þetta mál er ekki flutt að ófyrirsynju. Þær varnir sem heimilin þurfa gagnvart því ofurvaldi sem þau búa við gagnvart fjármálastofnunum hafa ekki verið reistar með fullnægjandi hætti. Þetta mál er bara steinn í þá hleðslu. Við búum við þá skipan mála að við erum með allt annað fyrirkomulag en gerist nokkurs staðar á byggðu bóli varðandi grundvallarþátt í lífi venjulegs fólks, þ.e. með hvaða hætti staðið er að því að fjármagna húsnæðiskaup þannig að fólk hafi þak yfir höfuðið. Við sitjum föst og spólum alveg endalaust í kerfi sem var sett upp sem neyðarúrræði í allt öðru þjóðfélagi en ríkir hér nú. Skipan atvinnumála var allt önnur. Fjármálamarkaðir ekki til í þeirri mynd sem við þekkjum þá núna. Þá var enginn hlutabréfamarkaður hérna, svo að dæmi sé tekið. Skuldabréfamarkaður var bara að byrja að slíta barnsskónum. Þá var tekið það þrautaráð að reyna að beita einhverjum verkfræðilegum lausnum á efnahagsvanda sem m.a. átti rót að rekja til þess að hér urðu, ekki hér heldur alþjóðlega, tvær olíuverðssprengingar á 8. áratug liðinnar aldar. Stærsti hluti þjóðarinnar var ekki fæddur á þeim tíma. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki síst af hálfu þeirra flokka sem hafa átt fulltrúa í umræðunum í dag, þ.e. Flokks fólksins og Miðflokksins, þá getum við ekki náð að rífa okkur upp úr þessu vegna þess að vanahugsunin er slík og kannski róa sterk öfl undir sem hafa af því mikla hagsmuni að þessu kerfi sé viðhaldið.

Sagan er óræk í þessum efnum. Afleiðingar hrunsins eru enn að koma fram í margvíslegum skilningi. Og það er náttúrlega alveg með ólíkindum hver framvinda mála varð. Hér lá það fyrir þegar frá því snemma árs 2008, það var a.m.k. orðið ljóst um páska, svo mikið treysti ég mér til að fullyrða, að undir krónunni væri engin föst jörð og hún gæti bara farið eins langt suður og hver maður gat ímyndað sér.

Menn þekkja það að þegar krónan fellur í verðgildi þá fylgja á eftir, að sjálfsögðu, verðhækkanir. Sá útbreiddi háttur sem mjög var haldið að mönnum að taka lán í erlendri mynt, helmings verðfall á krónunni leiddi náttúrlega af sér tvöföldun á höfuðstólnum og á kannski þremur mánuðum, eða hvað það nú var, skilaði það sér inn í verðlagsmælingarnar þannig að höfuðstólar verðtryggðu lánanna fóru sömu leið og fólk stóð frammi fyrir algjörlega óviðráðanlegri stöðu. Það var eins og að ætla sér að klífa þrítugan hamarinn að ráða við þetta.

Við höfum litið þannig á, eftir því sem ég best veit, að einstaklingum er ekki lengur heimilt að taka lán í erlendri mynt af varúðarástæðum til að verja fólk gegn þeirri áhættu að það taki lán og stofni til skuldbindinga í annarri mynt en þeirri sem það hefur tekjur sínar í.

En gáum að einu, frú forseti. Verðtryggt lán er ekki eðlisólíkt láni í erlendri mynt að þessu leyti. Menn eru ekki með tekjur í verðtryggðum krónum. Menn eru með tekjur í nafnkrónum. Verðtryggða krónan er jafn fjarlæg krónunni og hver önnur erlend mynt. Það stendur bara þannig á að hún heitir verðtryggð króna. Hún er engin króna, hún er bara einhver vísitala. Og taki menn eftir því, hvað er hún? Hún er þessi vísitala. Hvað er það? Jú, fram fara neyslukannanir á vegum Hagstofunnar og fjölskyldur sitja við að færa heimilisbókhald. Þetta er allt mjög vísindalega og frábærlega gert og vönduð vinnubrögð í hvívetna. Og alþjóðlegir staðlar í hávegum hafðir. En hvað gerist svo? Inni í þeirri vísitölu er húsnæðisliðurinn. Hann tekur ekki breytingum eins og almennt verðlag í landinu. Hann sætir sérlögmálum og hann hefur hækkað náttúrlega mjög eins og allir þekkja og margoft hefur verið nefnt í þessum ræðustól á undanförnum misserum, ræðst m.a. af því hvernig ástandið er á framboði íbúðarhúsnæðis, sem aftur ræðst að verulegu leyti af framboði byggingarlóða og alls konar skipulagslegum þáttum og byggingarreglugerðum og öllu mögulegu. Sú verðhækkun á húsnæði sem verður af þeim sökum hefur ekkert með verðbólgu að gera. Þegar farið var af stað með verðtrygginguna var hugmyndin sú að bæta lántakanda upp verðrýrnun peninganna en ekki breytingar á skipulagslegum þáttum eða lóðaframboði eða einhverri sérvisku í borgarstjórn eða sveitarstjórnum.

Ég leyfi mér að nota tækifærið, frú forseti, og vekja athygli á frumvarpi sem ég hef mælt fyrir og notið góðs atbeina mikið til sömu hv. þingmanna og eru á þessu frumvarpi, þakka ég þeim það eina ferðina enn, en það frumvarp er um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu og felur í sér það sem ég myndi leyfa mér að kalla tangarsókn, að hætti nafnkunns hershöfðingja, að verðtryggingunni úr öllum fjórum höfuðáttum. Og til að draga efni frumvarpsins saman, af því að nú er orðið áliðið dags, þá er það svona. Húsnæðisliðurinn út, óbeinu skattarnir út, eitraði kokteillinn út og okurvextirnir út. Það er frumvarpið. Það er til umfjöllunar í hv. þingnefnd og verður mjög fróðlegt að fylgjast með viðtökum við því.

Það einkenni sem við búum við og sem hér er verið að leitast við að bregðast við með því að efla varnir lántaka í slíkum viðskiptum, er vegna þess að það hefur verið talið eðlilegt og er að mestu leyti athugasemdalaust, nema af hálfu einhverra sérvitringa, að áhættu sé eins misskipt í lánasamningum og raun ber vitni. Það er ekkert jafnræði. Það er bara annar aðilinn sem ber alla áhættuna af verðlagsbreytingum. Hinn aðilinn ber enga áhættu af verðlagsbreytingum. Enga. Hvar þekkist þetta á byggðu bóli? Og sá sem ber enga áhættu af verðlagsbreytingum er víggirtur í bak og fyrir vegna þess að venjulega er ekki lánað nema fyrir hluta af verðmæti eignarinnar og þó að eignir af þessu tagi hækki yfirleitt í verði þá er hann bæði með belti og axlabönd, eins og stundum er sagt.

Reynslan af hruninu er, eins og komið hefur fram í máli ýmissa hv. þingmanna sem fjölluðu um málið, náttúrlega svo skelfileg að varla er hægt að koma að því orðum, er eins og einhverjar sveitir handrukkara eða ótíndra handrukkara sem fóru að næturlagi til að vörslusvipta, eins og það heitir, hirða bíla fyrir utan heimili fólks og annað af því tagi. Og svo þessi handrukkun, frú forseti, sem ég leyfi mér að kalla, þ.e. að halda fólki í spennitreyju, eins og var vikið að í máli sumra hv. þingmanna, sem það er enn þá í. Og partur af þeirri spennitreyju er að það er á einhverjum svörtum listum hérna og er jafnvel ekki talið í húsum hæft og því eru allar bjargir bannaðar. Það fólk kemst ekki á leigumarkað, getur ekki tekið lán til að kaupa, en við sinnum því fólki ekki neitt. Þetta fólk er gleymt, en það verður gleymt ei meir ef við fengjum aðeins að hafa meiri áhrif hér sem höfum beitt okkur í þessum efnum.

Það er reyndar ekki vansalaust, frú forseti, þetta ástand sem ríkir hvað þetta varðar, að fólki séu nánast allar bjargir bannaðar af því að það hafði unnið sér það til óhelgis að taka lán til að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði fyrir fjölskylduna, að eftir að hafa lent í þeim ósköpum að krónan missir sitt verðgildi og verðbólgan fer upp úr öllu valdi, að farið skuli vera með það eins og einhverja sakamenn. Það á sér engar bjargir og það á enga von, fyrir utan 30 þúsund manns sem búa erlendis. Við eigum 30 þúsund Íslendinga á erlendri grundu. Hvað höfum við að bjóða því fólki, sem getur tekið lán í þeim löndum þar sem það býr í með eðlilegum hætti og komið sér upp húsnæði? Hvað höfum við að bjóða því fólki? Ekkert, nema þessa verðtryggingu. Hvað haldið þið að margir sækist eftir því að búa á Íslandi af því að hér sé verðtrygging?

Við skulum ekki gleyma því, frú forseti, að undir fáguðu yfirborði ríkir sviði hjá mörgu fólki. Og við skulum einhvern tímann fjalla nánar um það. Við skulum fjalla nánar um það með hvaða hætti væri rétt, skynsamlegt og sanngjarnt að koma til móts við það fólk því að sviðinn býr þarna. Ég spyr: Getur verið að sumir þættir í samfélaginu sem eru mjög erfiðir viðureignar um þessar mundir eigi sér rót í því álagi sem fjölskyldur og heimilin urðu fyrir? Ég tel að það væri einnar messu virði að rannsaka það.

Frú forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanna fyrir þeirra mikilvæga framlag í þessum umræðum og þau gagnlegu innlegg sem allir sem einn höfðu fram að færa. Ég ítreka að ég vænti þess að málið fái málefnalega og ítarlega skoðun í þingnefnd og verður fróðlegt að sjá viðbrögðin. En þegar verið er að tala fyrir málum í þessum málaflokki hefur maður stundum óskað þess að áheyrendahópurinn væri eilítið stærri, hér er að vísu einvalalið, (Gripið fram í: Fámennt en góðmennt.) fámennt en góðmennt eins og sagt er. En við skulum sjá. Hér er mál sem ég tel að verðskuldi góðan framgang á vettvangi Alþingis.