149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019. Málinu var vísað til nefndar 14. september sl. og hefur nefndin fengið fjölmargar umsagnir um málið og hefur, ásamt fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fengið umsagnaraðila á fund nefndarinnar og margar gagnlegar ábendingar. Þá var haldinn einn fjarfundur með fulltrúum Byggðastofnunar.

Ég vil víkja að verklagi nefndarinnar sem snýr að fjárbeiðnum og tillögum sem berast henni. Nefndin hefur í samræmi við lög um opinber fjármál leitast við að bæta verklagið. Áður en nefndin tók afstöðu til einstakra beiðna var óskað eftir afstöðu viðkomandi ráðherra og kallað eftir upplýsingum um hvort viðkomandi beiðni félli að stefnumörkun málaflokksins og hvort ráðherra hefði gert samning eða hygðist gera samning við viðkomandi aðila. Svör ráðuneyta voru ekki alltaf viðunandi, það verður að segjast, og þetta breytta verklag kann að taka tíma. Telur meiri hlutinn það mikilvægt og fyrirhugar að fylgja eftir þessu breytta verklagi. Tilgangurinn með því er að tengja fjárbeiðnir betur saman við stefnumörkun í viðkomandi málefnaflokki þannig að ákveðin samfella myndist í fjárveitingum sem aftur hefur áhrif á uppfærslu fjármálaáætlunar að vori og kallar jafnframt eftir því að gerð sé grein fyrir árangri breyttra fjárveitinga í ársskýrslu hvers ráðherra.

Um heildaráhrif þeirra breytingartillagna sem við ræðum hér vil ég fyrst segja að heildaráhrifin frá frumvarpi eru sáralítil, því sem næst engin. Vissulega eru frávik, bæði tekju- og gjaldamegin, til hækkunar og lækkunar á hvorri hlið. Nettóbreytingin á tekjuhlið er hækkun tekna um 364,2 milljónir og nettóbreytingin á gjaldahlið til aukningar um 396,4 milljónir. Nettóáhrifin af þessu eru 32,2 milljónir til lækkunar á heildarafkomu.

Eftir sem áður er því áætlað að afgangur verði 1% af vergri landsframleiðslu eins og lagt er upp með í fjármálastefnu og fjármálaáætlun.

Það er gagnlegt að skoða frumjöfnuð og afkomu ríkissjóðs án vaxtagjalda og tekna en frumjöfnuðurinn hefur verið jákvæður allt frá árinu 2012 og vegur upp neikvæðan vaxtajöfnuð.

Endurmat tekjuáætlunar frumvarpsins hefur tekið óverulegum breytingum frá uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 2. nóvember, tæpum 400 milljónum með frávikum í báðar áttir. Þar munar mest um lækkun virðisaukaskatts um 4 milljarða vegna minnkandi einkaneyslu og minnkandi eyðslu ferðamanna hérlendis sem hefur áhrif á hann. Á móti vegur 1,7 milljarða kr. hækkun tekjuskatts einstaklinga og 2,7 milljarða kr. tekjur af sölu losunarheimilda. Önnur frávik vega minna.

Lagt er til að fjárheimildir aukist um 3,8 milljarða kr. vegna endurmats á launa-, gengis- og verðlagsforsendum frumvarpsins. Á móti vega endurmat og ýmsar ráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar til lækkunar á ýmsum útgjaldaskuldbindingum sem leiða til 4,3 milljarða kr. lækkunar. Eru þær ráðstafanir og breytingartillögur á gjaldahlið útskýrðar í sérstökum kafla aftast í álitinu og eru nettóáhrifin af þessum tilfæringum tæpar 400 milljónir.

Þessar breytingar koma að miklu leyti til af breyttum efnahagsforsendum sem byggja á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Frumvarpið byggir á spá sem birt var 1. júní á þessu ári en ný spá Hagstofunnar var birt 2. nóvember sl. Sjá má hlutfallslegar breytingar á milli spáa fyrir endurmat þess frá 1. júní til 2. nóvember og hið sama fyrir árið 2019.

Hagvöxtur reynist kröftugri á þessu ári en gert var ráð fyrir, um 0,9%. Fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir heldur minni hagvexti en gert var ráð fyrir í fyrri spá, um 0,2% magnminnkun skulum við kalla það. Verðbólguspáin er hins vegar nokkru hærri í nýju spánni, 3,6%, og gætir áhrifa þess í endurmati á gjöldum og tekjum en aðallega, eins og ég sagði, í launa-, gengis- og verðlagsbótum.

Helstu markmið frumvarpsins eru sett fram í samræmi við lög um opinber fjármál. Í 14. gr. þeirra kemur fram að frumvarpið skuli vera í samræmi við markmið fjármálaáætlunar sem samþykkt var sem þingsályktun á 148. löggjafarþingi, 6. júní sl.

Í greinargerð frumvarpsins er gerð grein fyrir helstu markmiðum þess og horfum í ríkisfjármálum. Í fjármálaáætlun fyrir 2019–2023 koma fram stefnumið varðandi afgang af heildarafkomu sem hlutföll af vergri landsframleiðslu og vöxt frumtekna og gjalda. Markmið er um að heildarskuldum ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál verði komið undir 25% af vergri landsframleiðslu í árslok 2019 og að fjárfestingar ríkissjóðs verði að jafnaði 2,5% af vergri landsframleiðslu til samanburðar við 2,1% árið 2018. Ríkissjóður hefur skilað afgangi á hverju ári frá og með árinu 2014 og einskiptis- og tímabundnar tekjur hafa verið nýttar til að greiða niður skuldir. Á aðeins sex árum hefur tekist að lækka heildarskuldir ríkissjóðs úr 86% af vergri landsframleiðslu í 31% nú í árslok.

Þá er í áætlunum gert ráð fyrir að greiddir verði árlega 7 milljarðar kr. inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þær námu samtals 619 milljörðum kr. í árslok 2017 og hafa hækkað á síðastliðnum árum. Með þessum forinngreiðslum er gert ráð fyrir að unnt verði að lækka skuldbindinguna verulega og bæta greiðslustöðu B-deildarinnar. Með þessum og öðrum langtímaaðgerðum er aukið á sjálfbærni ríkisfjármála sem er eitt af meginmarkmiðum laga um opinber fjármál.

Afgangur af rekstri ríkissjóðs er alveg við gólf fjármálastefnunnar, 1% af vergri landsframleiðslu, sem gerir tæpa 29 milljarða kr. Ljóst er að lítið má út af bregða til að afkomumarkmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar raskist. Þetta er eitt af því sem hefur komið fram í gagnrýni fjármálaráðs við fjármálastefnu og fjármálaáætlun, að við værum alveg við gólfið. Það má til sanns vegar færa að við höfum fundið fyrir því núna. Þó að breytingar á milli efnahagsspáa Hagstofunnar hafi verið jafn litlar og raun ber vitni þurfti ríkisstjórnin að bregðast við í hverju einasta ráðuneyti, fara mjög gaumgæfilega yfir alla þætti og gera skynsamlegar og ábyrgar ráðstafanir sem við sjáum í breytingartillögum. Ég tel að þetta sé eitt af því jákvæða sem við höfum innleitt hér með lögum um opinber fjármál. Þetta eykur agann í gegnum allt kerfið.

Efnahagshorfur eru almennt góðar en engu að síður er farið að hægja á hagvexti undanfarinna ára sem m.a. má rekja til hægari vaxtar í ferðaþjónustunni eins og nánar er farið yfir í umfjöllun um málefnasvið 14, þ.e. ferðaþjónustu. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að framvegis komi fram svigrúm milli fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar þannig að afkoma fjárlagafrumvarps ráði við sveiflur og endurskoðun efnahagshorfa án þess að afkomumarkmiði fjármálastefnu sé stefnt í hættu.

Á fundum nefndarinnar með nokkrum umsagnaraðilum, m.a. Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Ríkisendurskoðun, voru gerðar athugasemdir við framsetningu gagna frumvarpsins og fylgirit. Nefndin er öll sammála um og tekur undir þessar ábendingar og telur að framsetninguna megi bæta og leggur fram nokkrar tillögur í nefndaráliti sem ég ætla að rekja.

Framsetning talnagrunns verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að skýra og einfalda framsetninguna. Hugsanlega þarf lagabreytingar til að ná því fram.

Fylgirit með frumvarpi verði mun ítarlegra en nú er og þannig verði auðveldara að rekja fjárveitingar einstakra ríkisaðila, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Það er ekki óalgengt að við fáum spurningar um stöðu og ráðstafanir stofnana og þurfum að leggja í þó nokkra vinnu til að grafa það upp þannig að þetta er ekki nægilega gagnsætt að því leytinu til.

Verulega verði dregið úr endurtekningum í skýringartexta einstakra málefnasviða og flokka. Horft verði til þess að skýra fyrst og fremst breytingar á heildargjöldum og sleppa eins og hægt er skýringum samkvæmt hagrænni skiptingu.

Megináhersla í texta frumvarpsins ætti að felast í ítarlegri skýringum á svokallaðri útgjaldabrú sem birt er fyrir hvert málefnasvið fyrir sig. Fram til þessa hafa skýringar verið of knappar og oftar en ekki bæta þær engu við myndina eða stöplaritið sem sýnir breytingarnar á ramma á milli ára. Þetta eru stöplarit sem við sjáum við hvert málefnasvið fyrir sig og er mjög mikilvægt að útskýra frekar því að þetta eru mjög gagnlegar upplýsingar.

Nefndin kannaði sérstaklega útgjaldaþróun og hagræna skiptingu sem og aðhaldsstig ríkisfjármála. Í ljós kemur að launagjöld og almannatryggingar hafa hækkað mjög mikið á undanförnum árum og hlutfallslega meira en önnur gjöld. Það ætti auðvitað ekki að koma á óvart vegna þess að við höfum hækkað laun og kaupmáttur hefur aukist mjög á liðnum árum. Þó má draga þá ályktun að haldi sú þróun áfram að laun og almannatryggingar hækki hlutfallslega meira en önnur útgjöld dragi það úr svigrúmi til aukinnar uppbyggingar á öðrum sviðum innviðauppbyggingar.

Nokkrir umsagnaraðilar telja aðhaldsstig ríkisfjármála ekki viðunandi og vara við því að afgangur sé of lítill þannig að ekkert megi út af bregða til að ekki myndist halli á rekstri ríkissjóðs. Á hinn bóginn telja margir að ekki sé nægilega aukið til hinna ýmsu málaflokka. Nefndin telur að ekki liggi fyrir nægilega miklar sviðsmyndagreiningar á þessu sviði, ég segi nefndin vegna þess að hún er öll sammála um þetta, og kallar eftir sviðsmyndagreiningum í tengslum við endurskoðun fjármálaáætlunar.

Seðlabanki Íslands leggur mat á aðhaldsstig ríkisfjármála, síðast í fjórða riti Peningamála 2018, og metur að teknu tilliti til óreglulegra tekju- og gjaldabreytinga að hve miklu leyti afkoman endurspeglar breytingar á almennum efnahagsumsvifum. Að mati Seðlabanka Íslands jókst aðhaldsstigið árið 2018 og telur meiri hlutinn það skynsamlega ríkisfjármálastefnu, komandi frá toppi hagsveiflunnar á þessu ári. Samkvæmt mælingum bankans undanfarin þrjú ár var hins vegar slakað á aðhaldsstigi ríkisfjármála þar á undan. Gangi spá bankans eftir miðað við fyrirliggjandi frumvarp má búast við að á ný slakni á aðhaldinu á næsta ári. Af því má vel draga þá ályktun að ríkisfjármálastefnan styðji þannig ekki nægilega vel við peningamálastefnuna fyrir æskilegt jafnvægi í þjóðarbúskap. Á móti má hins vegar benda á að þá skiptir máli í hvað peningarnir fara, í auknar fjárfestingar eða, eins og nú er t.d. að gerast, í launa- og verðlagsbætur. Ný og endurmetin spá Hagstofu Íslands sýnir að hagvöxtur fer minnkandi og því telur meiri hlutinn eðlilegt að slaka á aðhaldinu og auka skynsamlegar fjárfestingar til velferðarmála, samgangna og menntamála eins og birtist í því frumvarpi sem við erum að fjalla um.

Vegna skuldalækkunar undanfarinna missera má gera ráð fyrir að vaxtajöfnuðurinn batni um 10 milljarða kr. milli ára eins og fram kemur í útgjaldaaukningu í frumjöfnuði. Það má lesa þar á milli í heildarjöfnuðinum.

Það er mikilvægt að horfa til skynsamlegrar stefnu í að greiða niður skuldir sem gefur aukið svigrúm til þeirrar uppbyggingar og fjárfestinga í velferð, menntun, samgöngum, loftslagsmálum, öflugri utanríkisþjónustu — og þegar hagvöxtur fer dvínandi er frábært að vera í færum til að fjárfesta til framtíðar og auka þannig möguleika okkar á að auka hér og bæta lífskjör fyrir komandi kynslóðir. Það eru kannski meginskilaboðin, bæði í frumvarpinu og þeim breytingum sem við erum að horfa á hér. Þannig aukum við rammasett útgjöld að raungildi um 5,4% og heildarútgjöld að raungildi um 9,3%. Frumgjöldin aukast þannig að nafnvirði á milli ára um 14,6%. Það er vel í lagt.

Ég ætla í framhaldinu að tæpa á helstu málefnasviðum sem meiri hlutinn setur fram í nefndaráliti. Auðvitað reikna ég ekki með að fara yfir það allt. Ég veit að kollegar mínir í meiri hlutanum munu styðja mig í því og koma inn á helstu málefnasviðin.

Útgjöld til samgöngu- og fjarskiptamála aukast verulega í samræmi við stjórnarsáttmálann og ríkisfjármálaáætlun. Þar er um að ræða átak í samgöngumálum til næstu þriggja ára og birtist það í þessu fjárlagafrumvarpi þar sem útgjaldabreytingin á milli ára er 13,9%, að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum.

Í ríkisfjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti á vorþingi kemur fram að setja eigi verulega aukna fjármuni í að mæta uppsafnaðri viðhaldsþörf og sinna nauðsynlegum úrbótum í samgöngum og fylgja eftir átakinu Ísland ljóstengt til loka, hlúa að netöryggismálum og viðhalda sterkri stöðu Íslands í fjarskiptamálum sem viðurkennd er af Alþjóðafjarskiptasambandinu. Við erum fremst meðal jafningja á þessu sviði.

Liðir fjárlagafrumvarpsins á sviði samgöngu- og fjarskiptamála eru skýrt dæmi um að lög um opinber fjármál styrkja samspil stefnumótunar og áætlanagerðar þannig að fjárlög endurspegli heildstæða, samþætta stefnu og áætlanagerð í samræmi við samþykktar áætlanir á vegum Alþingis og ríkisstjórnar. Því má segja að frumvarpið staðfesti að samgönguáætlunin sé raunsæ og ábyrg. Og hún er fjármögnuð.

Óverulegar breytingar verða á fjárveitingum til landbúnaðar milli ára, enda yfirgnæfandi hluti fjárhagsrammans bundinn í samningum ríkisvalds og bænda.

Á þessu þingi hefur mikið verið rætt um sjávarútveg og fiskeldi. Sjávarútvegur er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar og hefur löngum verið einn helsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur okkar og lengi vel þar til að ferðaþjónustan tók fram úr á þann mælikvarða. Meiri hlutinn leggur áherslu á að umhverfi fyrirtækja í sjávarútvegi búi við sanngirni og stöðugleika og veiðigjaldafrumvarp liggur fyrir þinginu núna til umfjöllunar í hv. atvinnuveganefnd.

Meiri hlutinn beinir þeim tilmælum til hæstv. ríkisstjórnar að fram fari ítarleg vinna um áhrif veiðigjalds á byggðir landsins, enda sé um að ræða einn af grunnatvinnuvegum landsins sem er víða undirstaða byggðar.

Meiri hlutinn ítrekar álit sitt sem fram kom vegna fjármálaáætlunar 2019–2023 í vor um mikilvægi þess að hagskýrslugerð og rannsóknir sem varða ferðaþjónustuna verði bættar eins og stefnt er að. Þar sem ferðaþjónustan er farin að vega jafn þungt í okkar efnahagsumhverfi og atvinnulífi er afar mikilvægt að við tökum mjög vel utan um stefnumörkunina, rannsökum þennan atvinnuveg og eflum þekkingu á því sviði.

Þá kallar nefndin ítrekað eftir sviðsmyndagreiningum um áhrif ferðaþjónustunnar á hagkerfið.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er forgangsraðað í þágu umhverfismála. Í þessu fjárlagafrumvarpi hækka útgjöldin að raungildi um rúmlega 1,5 milljarða kr., tæp 9%, og er hækkunin meiri á aðeins örfáum málefnasviðum. Útgjaldasvigrúmið nemur 1.320 millj. kr. og þar vega þyngst framlög vegna loftslagsmála og til að styrkja innviði á náttúruverndarstöðum og vegna aukinnar landvörslu.

Ég ætla að fara ítarlega yfir mennta- og menningarmál. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur mikla áherslu á öflugt menntakerfi, enda eru menntun, vísindi og rannsóknir forsenda nýsköpunar og framfara og ávísun á framtíðarhagvöxt. Undirstaða íslenska skólakerfisins verður áfram skapandi og gagnrýnin hugsun ásamt því að efla læsi og þátttöku í lýðræðissamfélagi, enda miða verkefnin að því að styrkja þessar undirstöður með margvíslegum hætti. Menning, skapandi greinar og íþróttir eru hverju þjóðfélagi afar mikilvæg. Einkum er aðkallandi að tryggja öllum aðgengi að menningu, íþróttum og æskulýðsstarfi og efla skapandi greinar sem atvinnuveg. Ég held að á sviði forvarna séu tækifærin einna mest á þessu sviði. Rúmlega 11% af heildarútgjöldum ríkissjóðs renna til málefnaflokka sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðherra. Málefnasviðin eru fimm talsins og skiptast í menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsmál, fjölmiðlun, framhaldsskólastigið, háskólastigið og loks önnur skólastig.

Í heildarútgjöldin eru áætlaðir 14,5 milljarðar kr. og aukast lítillega að raungildi á milli ára. Í samræmi við þau fyrirheit að fólk fái notið menningararfsins og að honum verði miðlað til landsmanna, ekki síst barna og unglinga, eru fjárheimildir safnamála auknar um 75 millj. kr. til eflingar höfuðsöfnunum þremur. Varðveisla íslenskrar tungu er mikilvægur þáttur menningar og samhliða frumvarpi til fjárlaga árið 2019 hefur hæstv. ráðherra lagt fram frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku þar sem markmiðið er að efla læsi og vernda íslenska tungu.

Framlög eru aukin til Kvikmyndasjóðs og aðgerðaáætlunar um máltækni þar sem heildarframlagið 2019 til verkefnisins verður 460 millj. kr. Heildarframlög til málefnasviðsins aukast þannig um tæp 4% og verða rúmir 14,5 milljarðar kr.

Að stærstum hluta fer íþróttastarf fram á vettvangi sveitarfélaga og hjá frjálsum félögum og félagasamtökum og er drifið áfram að miklu leyti af sjálfboðaliðastarfi. Í ráðuneytinu er nú unnið að, og ég held að það sé komið fram á samráðsgátt, nýrri íþróttastefnu og þar er mikil áhersla lögð á að greiða fyrir þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Við þurfum að gera betur, virðulegi forseti, á því sviði. Það er unnið að því að greina stöðuna hjá þessum hópi.

Þá er í vinnslu aðgerðaáætlun í samræmi við tillögur starfshóps #églíka-byltingar og ráðherra mun leggja fram frumvarp til laga um samskiptafulltrúa íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar og fjármögnun þar að lútandi. Heildarframlög til málaflokksins eru tæpir 4 milljarðar kr. og mesta aukning málaflokksins milli ára er í Afrekssjóð ÍSÍ.

Undir málefnasviðið fjölmiðlun heyra fjölmiðlanefnd og Ríkisútvarpið og þar er rekstur Ríkisútvarpsins langfyrirferðarmestur.

Fjárheimildir til framhaldsskólanna haldast nær óbreyttar á milli fjárlagaára og er heildarfjárheimildin rúmlega 31 milljarður kr. en vegna fækkunar nemenda hækka framlög á hvern nemanda og styrkir það þannig fjárhagslega stöðu framhaldsskólanna eins og lagt var upp með við styttingu framhaldsskólans. Í ríkisfjármálaáætlun kemur fram að fjöldi ársnemenda er áætlaður 17.896 á þessu ári og fækkar þeim í 16.714 á næsta ári. Miðað við breytingar á rekstrarframlögum málefnaflokksins hækkar ríkisframlag á nemanda um 180.000 kr. á milli ára. Hins vegar er mikilvægt að fylgjast með öðrum áhrifum af þeim breytingum sem verða við styttingu framhaldsskólans, svo sem hlutfalli brautskráðra, brottfallinu og þeim sem eru enn í námi eftir að þessum áætluðum þriggja ára tíma lýkur, og við könnum hvaða áhrif þetta hefur félagslega á nemendur í framhaldsskólunum. Mikilvægt er að við hugum þegar frá upphafi að þessum þáttum.

Heildarútgjöld til háskólastigsins verða 46,7 milljarðar kr. og aukast að raungildi um 705 millj. kr. milli ára. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lagt upp með að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins fyrir árið 2020 og Norðurlandanna árið 2025. Fjárlaganefnd hefur ítrekað kallað eftir skýringum á þessu og hvað þessir mælikvarðar segja okkur. Ef við ætlum að fara að elta slík meðaltöl og byggja mælikvarðana á einhverjum samanburði verður mælikvarðinn að vera samanburðarhæfur við þá skóla sem við erum að keppa við. Í ráðuneytinu er vinnuhópur með Hagstofu Íslands að skilgreina hvernig best er að bera saman þróun framlaga til háskólastigsins við það sem gerist erlendis.

Mikilvægt er að fyrir liggi þessi samanburðarhæfi mælikvarði, að það sé dregið fram hvar við liggjum á þeim mælikvarða, þess gætt að íslensku skólarnir dragist ekki aftur úr í alþjóðlegri þróun og að þeir uppfylli alþjóðlegar gæðakröfur.

Ekki er síður nauðsynlegt að skilgreina hver ávinningurinn er af því að fylgja þessum mælikvörðum. Þess vegna leggur meiri hlutinn áherslu á að gerðar verði úttektir á gæðum háskólanáms og jafnframt breytingum á reiknilíkaninu um fjárveitingar, sem oft hefur komið til umfjöllunar, með það að markmiði að auka áherslur á gæði námsins frekar en fjölda nemendanna.

Það á við um framhaldsskólastigið.

Ég ætla aðeins að koma inn á önnur skólastig, aðallega það sem snýr að lýðháskólunum. Meiri hlutinn gerir breytingartillögu um fjárframlög til lýðháskóla á Flateyri og LungA á Seyðisfirði. Báðir þessir skólar eru mikilvægir í endurreisn sinna byggðarlaga. LungA hefur starfað á Seyðisfirði í fjögur ár en skólinn á Flateyri var settur í fyrsta sinn nú í haust. Tilkoma skólanna hefur þegar skapað mikil umsvif og sett svip á sveitarfélögin og bæjarbraginn, en meiri hlutinn leggur áherslu á að framlögin eru grunnur að tilraun með þetta skólastarf. Fyrir liggur frumvarp um þetta skólastig og er mikilvægt að Alþingi fjalli um og afgreiði það svo þetta skólaumhverfi fái lagagrundvöll. Meiri hlutinn felur mennta- og menningarmálaráðherra að gera formlega samninga við skólana og tryggja fjármögnun þeirra.

Framlög til heilbrigðismála verða aukin að nafnvirði um 7% á árinu 2019, um tæplega 15 milljarða kr., og það er í samhengi við fyrirætlanir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Megináherslan er á greiðara aðgengi að heilsugæslu, minni greiðsluþátttöku sjúklinga, framkvæmdir við nýjan Landspítala, öflugri göngudeildarþjónustu, styrkingu heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, uppbyggingu hjúkrunarrýma og bætta geðheilbrigðisþjónustu. Við erum að setja verulega aukna fjármuni í þetta kerfi til að styrkja sjúkrahúsin okkar, heilbrigðisþjónustuna og heilsugæslurnar um allt land og að fara í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Það er það sem lagt var upp með og birtist í þessu frumvarpi og er engin breyting á hér á milli umræðna.

Ég ætla þá að víkja eilítið að velferðarmálum, þeim hluta velferðarráðuneytisins sem snýr að félagsmálum. Nefndin hefur margsinnis fjallað um málefni öryrkja, bæði í tengslum við fjármálaáætlun og fjárlagafrumvörp, og aflað sér upplýsinga, m.a. frá velferðarráðuneyti, Tryggingastofnun ríkisins og VIRK, starfsendurhæfingarsjóði. Örorkulífeyrisþegum fjölgaði um 2.615 á sex ára tímabili, sem nemur 17%. Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að hægi á þessari þróun og miðað við árlega fjölgun um 1,9% að jafnaði fram til ársins 2030 mun það leiða til þess, að öllu óbreyttu, að framlög til örorkubóta hækki úr 41 milljarði kr. í ár í um 90 milljarða kr. árið 2030. Þetta eru upplýsingar sem hanga saman við það sem ég kom inn á í upphafi ræðunnar, að ef launaþróun heldur áfram með þessum hætti minnkar almennt svigrúm til innviðauppbyggingar í ríkisfjármálunum.

Heildarþróunin hérlendis er ekki einsdæmi en við verðum að skoða samspil bóta, endurhæfingar og atvinnuþátttöku öryrkja. Sjálfsagt er að líta til reynslu og árangurs Norðurlandanna á því sviði. Ástæður aukinnar örorku eru einkum geðraskanir og stoðkerfissjúkdómar, auk lýðfræðilegra breytinga. Útgjöldin hafa aukist umtalsvert að raungildi, sérstaklega á allra síðustu árum, en meiri hlutinn telur nauðsynlegt að auka sveigjanleikann í kerfinu til að mæta mismunandi þörfum einstaklinga með skerta starfsgetu.

Á fundum nefndarinnar hafa komið fram ýmiss konar tillögur til úrbóta sem lúta m.a. að innleiðingu kerfa þar sem horft verði til getu í stað vangetu, með áherslu á atvinnutengda endurhæfingu, snemmtæka íhlutun, þverfaglega nálgun og samfellu í framfærslu. Með slíkri nálgun er reynt að meta getu einstaklingsins til launaðra starfa fremur en að horfa einvörðungu til læknisfræðilegrar skerðingar eins og gert er í örorkumati. Að sama skapi er varhugavert að tengja rétt lífeyris við annan stuðning sem tengist allt öðrum þáttum eða aðstæðum einstaklings.

Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn á að ekki hafa orðið grundvallarbreytingar á örorkubótakerfinu um árabil og að núgildandi örorkumat byggist á staðli frá árinu 1999 sem er algjörlega barn síns tíma og löngu tímabært að endurskoða kerfið frá grunni. Telur meiri hluti fjárlaganefndar mikilvægt að um leið og horft er til breytinga á matskerfinu verði staðinn vörður um hlutverk almannatryggingakerfisins sem framfærslukerfis og þar með öryggisnets þeirra sem ekki geta framfleytt sér á vinnumarkaði sökum skertrar starfsgetu.

Vinnuhópar á vegum velferðarráðuneytisins eru að undirbúa tillögur um endurbætt örorkumatskerfi og nýtt framfærslukerfi. Ekki er þó gert ráð fyrir að nýtt heildstætt kerfi taki gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2020 þar sem stefnt er að því að ná sem víðtækastri pólitískri sátt um kerfisbreytingar. Það er afar mikilvægt og við leggjum áherslu á að tillögur komi frá þessum hópi sem fyrst. Nú er gert ráð fyrir 2,9 milljarða kr. viðbótarframlagi til kerfisbreytinga til að bæta kjörin vegna seinkunar á vinnu starfshópsins sem fjallar um tillögur um kerfisbreytingar, auk 700 millj. kr. hækkunar til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fjárveitingunni verði ekki ráðstafað nema sem hluta af heildstæðri áætlun. Þetta er fjármagnað, þessir peningar eiga að fara í þessa vinnu en við þurfum að vanda okkur og gera þetta vel.

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið út af þessu vil ég segja að ekki er verið að taka neitt af neinum. Það er búið að naglfesta 4 milljarða í þetta verkefni í ríkisfjármálaáætlun og þessir 4 milljarðar fara í þetta verkefni, sama á hvaða tímapunkti það kemur. Við erum hins vegar að setja fram fjárheimildir til ráðstöfunar og við verðum að vera ábyrg í því hvað við setjum þar inn og í samræmi við framgang verkefna, alveg sama hvaða nafni þau nefnast, en fjárlagaárið fellur innan almanaksársins þannig að ef verkefnið hliðrast til eigum við ekki að vera að opna fjárheimildir sem ekki verða nýttar. Þetta snýst aðallega um það. Það er tæknilegt, 4 milljarðar eru í þetta verkefni og við leggjum ofuráherslu á að það verði klárað. Ég hef mikla trú á þeim hópi sem er að vinna þessa vinnu. Þetta er þverfaglegur starfshópur og þarna eiga allir flokkar á Alþingi fulltrúa. Fulltrúar umbjóðenda, Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar, sem hafa komið að þessari vinnu eru mjög öflugir þannig að ég hef fulla trú á að góðir hlutir komi út úr þessari vinnu. Við verðum að breyta þessu kerfi vegna þess að í því eru vondar gildrur og ég held að allir hv. þingmenn séu sammála um það.

Framlög til málefnasviðsins fjölskyldumál endurspegla forgangsröðun fjölskyldumála í fjárlagafrumvarpi. Aukning að raungildi nemur 4,6 milljörðum kr. sem eru 14% og hlutfallslega þriðja mesta hækkun málefnasviðsins á milli ára. Auðvitað er þetta ekki hátt í fjárhæðum en mest munar um 1,6 milljarða kr. hækkun barnabóta sem eru hækkaðar sérstaklega til að styðja við tekjulægri fjölskyldur. Bæði er um að ræða hækkun fjárhæða og viðmiðunarmarka skerðingar barnabóta. Fjárheimild Fæðingarorlofssjóðs er aukin samtals um 2,2 milljarða kr. og munar þar mest um hækkun hámarksgreiðslna foreldra í fæðingarorlofi upp í 600.000 kr. á mánuði. Einnig er áætlað fyrir hækkun framlags í lífeyrissjóði upp í 11,5%.

Þá eru veittar 200 millj. kr. til snemmtækrar íhlutunar í málefnum barna og aðgerða í þágu efnaminni barnafjölskyldna.

Við þurfum vissulega að vera á vaktinni og við þurfum að vanda okkur þegar kemur að efnahagsmálum og horfum í nýjustu efnahagsspá. Það hefur hægst á í hagkerfinu en við erum með hagvöxt. Það er ánægjulegt að geta lagt til útgjaldaaukningu og innviðauppbyggingu á öllum málefnasviðum, til allt að því allra málefnaflokka, og standa við loforð um að fjárfesta í velferð, menntun, samgöngum og aðgerðum vegna loftslagsbreytinga og taka þátt í því verkefni jafn myndarlega og gert er. Þetta er ávísun á hagvöxt til framtíðar og uppbyggingu fyrir komandi kynslóðir. Ef við höldum skynsamlega á málum eigum við að geta á komandi árum hugað að frekari innviðauppbyggingu á þessum sviðum.

Þarna á forgangurinn að liggja og hann birtist í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum hér og breytingar á milli umræðna hafa ekki áhrif á þessi markmið.

Virðulegi forseti. Rétt áður en ég lýk ræðu minni vil ég draga fram helstu breytingar meiri hluta hv. fjárlaganefndar en ég vísa að öðru leyti í skýringar við breytingartillögur sem koma fram aftast í áliti meiri hlutans. Ef við tökum allar breytingar sem eru að verða er mjög áberandi að hvert málefnasvið tekur launa-, gengis- og verðlagsbreytingum og svo eru almennar ráðstafanir sem koma á móti sem ég fór yfir í upphafi ræðu.

Hér speglast auðvitað sú staðreynd að verðbólgan hefur aðeins látið á sér kræla. En á móti kemur, eins og ég dró fram í ræðu minni, sú staðreynd að aginn sem felst í lögum um opinber fjármál speglast í þeim almennu ráðstöfunum sem hver ráðherra þarf að fara í til að mæta þeim hækkunum með mótvægisaðgerðum til að standa við þau afkomumarkmið sem sett hafa verið í stefnu og áætlun.

Ég var búinn að fara yfir breytingar sem snúa að framlögum til lýðháskóla en meiri hlutinn leggur til framlög til lýðháskólanna, LungA á Seyðisfirði og skólans á Flateyri, og leggur jafnframt áherslu á að ráðherra klári frumvörp þess efnis til að styrkja almennan lagagrundvöll fyrir þessa skóla og þá er afar mikilvægt að hæstv. ráðherra geri samning í framhaldinu.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur jafnframt fram breytingartillögu um 200 millj. kr. framlag til endurnýjunar á myndgreiningarbúnaði fyrir heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Endurnýjun slíks búnaðar er afar mikilvæg til styrktar þeirri starfsemi og búnaðurinn er víða orðinn úreltur. Við leggjum síðan á það áherslu í meiri hlutanum að skipting fjárins skuli fara fram í samstarfi við ráðherra heilbrigðismála og forstöðumenn heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Það er ekki ólíkt því sem var við síðustu fjárlög, fyrir árið 2018, þar sem meiri hlutinn kom fram með aukafjárheimildir til að styrkja rekstrargrundvöll heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og átti afar gott samstarf við ráðherra og forstöðumenn þeirra stofnana um skiptingu á því framlagi.

Hér leggur meiri hlutinn fram tillögu að 150 millj. kr. tímabundnu framlagi til reksturs SÁÁ. Meiri hlutinn leggur áherslu á að velferðarráðuneytið feli Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga um göngudeildarþjónustu á vegum SÁÁ, auk þess að styrkja aðra þjónustu í samræmi við stefnumótun. Við leggjum áherslu á þetta framlag fyrir þessa góðu þjónustu sem við vitum að kemur sér vel til að styrkja göngudeildarþjónustuna hér og fyrir norðan og mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á þessu sviði vegna biðlista sem eru til staðar.

Þá held ég að ég hafi dregið fram það helsta í nefndarálitinu, virðulegi forseti. Ég veit að kollegar mínir í meiri hluta hv. fjárlaganefndar munu draga fram helstu þætti á öðrum málefnasviðum.

Varðandi breytingartillögur vísa ég til þeirrar samantektar sem er aftast í áliti meiri hlutans og þeirra breytingartillagna sem koma fram á öðrum sérstökum þingskjölum og hæstv. forseti fór yfir áður en ég hóf ræðu mína.

Ég þakka allri hv. fjárlaganefnd góða vinnu og ekki síst samstöðu um að halda tímaáætlun. Ég vona að umræðan hér verði uppbyggileg og gagnleg. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið, liggja fyrir á sérstökum þingskjölum og gerð er tillaga um.

Undir þetta álit skrifa, ásamt þeim sem hér stendur, hv. þingmenn Haraldur Benediktsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Páll Magnússon. Að venju fer ég fram á að frumvarpið gangi til nefndar fyrir 3. umr.