149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdina. Ég sagði í ræðu minni, hv. þingmaður, að þetta væri naglfast í ríkisfjármálaáætlun. Þessir 4 milljarðar fara í þetta verkefni og það stendur. Það er ábyrgð. Það sem er kannski lykilatriði hér er að þetta er ekki bara tímabundið heldur mun standa inn í framtíðina. Vonandi tekst okkur öllum, og starfshópnum, og ég hef mikla trú á því, að koma með tillögur að breytingum á kerfinu sem er löngu úr sér gengið. Það er okkar sameiginlegi vilji.

Hins vegar vil ég segja að ég vísa því til föðurhúsanna þegar við erum að tala um ábyrgð. Það er óábyrgt að tala svona. Það er óábyrgt að láta þennan hóp velkjast í vafa um að við ætlum að gera breytingar á kerfinu, að láta hann velkjast í vafa um það hvort bætur eru að hækka. Þær eru að hækka úr 3,4% í 3,6%. Við erum ekki að skerða eitt eða neitt í launabótum. Laun þessa fólks standa. Þannig að við skulum ekki valda misskilningi í því.